Þriggja ára fangelsi fyrir hópnauðgun

Landsréttur sneri við ákvörðun héraðsdóms.
Landsréttur sneri við ákvörðun héraðsdóms. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur hefur dæmt þá Ásbjörn Þórarinn Sigurðsson og Bessa Karlsson í þriggja ára fangelsi fyrir að hópnauðga 18 ára gamalli stúlku í mars 2020.

Héraðsdómur hafði upprunalega sýknað mennina en Landsréttur sneri ákvörðun héraðsdóms við fyrr í dag.

Í dómnum kemur fram að nauðgunin hafi átt sér stað aðfaranótt sunnudagsins 8. mars 2020 á heimili Ásbjörns.

Þvinguðu hana til að hafa við þá munnmök

Segir þar að Ásbjörn hafi klipið í handlegg stúlkunnar, haldið höndum hennar föstum, rifið endurtekið í hár hennar og tekið hana hálstaki.

Þá hafi þeir báðir, Ásbjörn og Bessi, þvingað hana til að hafa við þá munnmök.

Á meðan því stóð þukluðu þeir báðir á líkama hennar innanklæða og kynfærum hennar utanklæða.

Jafnframt þvinguðu þeir hana til að taka kókaín.

Allt hafði þetta þær afleiðingar að stúlkan hlaut þreifieymsli í hársverði og yfir vöðvum á hálsi beggja vegna og marbletti á vinstri upphandlegg.

Framburður stúlkunnar trúverðugur

Í dómi Landsréttar var rakið að framburður stúlkunnar hefði frá upphafi verið skýr, stöðugur og án mótsagna um þau atriði sem máli skiptu.

Þá fékk framburður stúlkunnar stoð í gögnum málsins, þar á meðal fyrstu lýsingum vitna á vettvangi og niðurstöðum rannsókna á fatnaði Bessa Karlssonar og lífsýnum af sama fatnaði.

Framburður stúlkunnar var talin afar trúverðugur á meðan framburður Ásbjörns og Bessa var aftur á móti talin ótrúverðugur, enda fékk hann takmarkaða stoð í trúverðugum framburðum annarra vitna og gögnum málsins.

Það var því niðurstaða Landsréttar að fram væri komin nægileg sönnun um að Ásbjörn og Bessi hefðu gerst sekir um þá háttsemi sem þeim var gefin að sök.

Litið til tafa sem urðu á meðferð málsins

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot þeirra hefðu verið alvarleg og beinst að ungri stúlku sem var stödd ein og ölvuð um nótt á heimili annars þeirra.

Þá var litið til 1. og 2. töluliðar í 1. mgr. 70. gr. hegningarlaga en þar segir að þegar hegning er tiltekin, á einkum að taka til greina eftirtalin atriði:
1. Hversu mikilvægt það er, sem brotið hefur beinst að.
2. Hversu yfirgripsmiklu tjóni það hefur valdið.

Einnig var litið til 2. mgr. 70. gr. sömu laga en þar segir að hafi fleiri menn en einn unnið verkið í sameiningu, skal að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni.

Þá var einnig litið til tafa sem urðu á meðferð málsins og var Ásbirni og Bessa hvorum um sig gert að sæta fangelsi í þrjú ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert