Víða er mikil hálka á vegum landsins.
Reiknað er með versnandi færð á Austurlandi og Suðausturlandi vegna snjókomu og skafrennings en gular viðvaranir tóku gildi á þessum svæðum klukkan átta í morgun.
Á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is, kemur fram að snjóþekja eða hálka sé á flestum leiðum á Vestfjörðum. Ófært er á Dynjandisheiði og verður vegurinn skoðaður eftir hádegi í dag.
Flughálka er á Suðurstrandarvegi við Krýsuvíkurvegamót og á efri og neðri Grafningsvegi. Sömu sögu er að segja í Hvalfjarðarsveit en þar er mikil hálka og snjóþekja er á flestum leiðum á Vesturlandi. Þungfært er í Álftafirði á norðanverðu Snæfellsnesi en þæfingur er á Útnesvegi ásamt éljagangi eða snjóþekju.
Á Austurlandi er ófært yfir Öxi og Breiðdalsheiði en hálka er á flestum leiðum og krapi á Fjarðarheiði.
Mikil hálka er á flestum útvegum í uppsveitum á Suðurlandi en hálka eða hálkublettir eru á helstu vegum.