Á Íslandi eru milli 21-22.000 manns sem styðja mánaðarlega við starf Unicef og hefur þessi fjöldi tryggt Íslandi það sem Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef, kallar „heimsmet í því að bjarga heiminum“.
Búðu til pláss, styrktarþáttur Unicef verður sýndur í kvöld klukkan 19:40 á Stöð 2, RÚV og Sjónvarpi Símans og er þar áformað að bæta enn við þennan fjölda heimsforeldra.
Heimsforeldrar skipta miklu máli í starfi Unicef „Þannig að það að fá að hafa svona stóran þátt á öllum stöðvum þar sem að allir aðilar taka höndum saman fyrir góðan málstað, það er bara algjörlega ómetanlegt,“ segir Birna.
Um er að ræða sögulegt samstarf sjónvarpsstöðvanna og segir hún samstarfsviljann hafa verið einstakan og verkefnið gefandi, enda málefnið aðkallandi.
Birna segir enga aðra þjóð komast með tærnar þar sem Íslendingar hafa hælana í þessum málum og að þeim þyki það fallegt kappsmál að vilja halda þessu heimsmeti, það lýsi Íslendingum vel að vilja gefa af sér og leggja sitt af mörkum til að gera heiminn aðeins betri fyrir öll börn.
Framlög heimsforeldra tryggja að Unicef geti unnið að réttindum barna út um allan heim en sökum mála í heiminum í dag verður áhersla lögð á Gasa í þætti kvöldsins.
Það verður bæði gert með frásögnum sem birtast í þættinum og með því að taka við fyrirtækjaframlögum og stökum styrkjum fyrir Gasa en jafnframt fara framlög fyrstu þriggja mánaðana hjá nýjum heimsforeldrum í neyðarstarf Unicef á Gasa.
Birna segist vona að sem flestir upplifi þáttinn sem „virkilega gefandi á sérstökum tímum, vegna þess að það sem við viljum gera með þættinum er að gefa fólki von, að segja að maður eigi ekki að fyllast vanmáttarkennd því að við getum öll gert eitthvað“ og bætir við „í rauninni er gott fyrir sálina að vera heimsforeldri“.
Hún segir áhorf á þáttinn í kvöld frábæran upphafsstað á þeirri vegferð og vonast til að fólk gleðjist bæði og fræðist, „það má líka vera pínu sorgmæddur yfir útsendingunni, það verður allt litróf tilfinninganna í boði í kvöld“.