Fyrrum þingmaður framkvæmdastjóri Virðingar

Valdimar Leó Friðriksson.
Valdimar Leó Friðriksson. Ljósmynd/Alþingi

Valdimar Leó Friðriksson, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, mun taka til starfa sem framkvæmdastjóri hjá stéttarfélaginu Virðingu í janúar. Það kemur fram í skriflegu svari Valdimars til mbl.is.  

Hann situr jafnframt í varastjórn Virðingar og er í trúnaðarráði VR. 

Mikill styr hefur staðið um Virðingur sem stofnað var í október síðastliðnum. Fram kom í gær að Virðing hefur skrifað undir kjarasamning við SVEIT, samtök fyrirtækja á veitingamarkaði. Eru launakjör og réttindi starfsmanna í veitinggeiranum undir í þeim samningi.  

„Gervistéttarfélag“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í samtali við mbl.is í gær að Efling líti á hið nýja stéttarfélag sem gervistéttarfélag. Fram kom í máli hennar að Efling telji vegið að hagsmunum starfsmanna í veitingageiranum.

Þá sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður starfsgreinasambandsins, að hann líti svo á að Virðing sé að „kalla yfir sig stríð“ ef félagið heldur áfram. 

Tjá sig ekki 

SVEIT, sendir frá sér yfirlýsingu í gær þar sem ummæli Eflingar í yfirlýsingu eru gagnrýnd. Nefnir félagið m.a. að launakjör starfsfólks í dagvinnu séu um 3% betri en kjör á almennum markaði.  

Forsvarsfólk Virðingar hafa ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því hefur verið leitað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert