Greinilegt að um umfangsmikla starfsemi sé að ræða

Jón Ingi í héraðsdómi í ágúst.
Jón Ingi í héraðsdómi í ágúst. mbl.is/Eyþór

Greinilegt er að allir þeir ákærðu í Sólheimajökulsmálinu ráku umfangsmikla starfsemi um sölu og dreifingu fíkniefna sem Jón Ingi Sveinsson stýrði ásamt Árna Stefáni Ásgeirssyni og Pétri Þór Elíassyni.

Jón Ingi gegndi einhverskonar yfirmannsstöðu í starfseminni á meðan að Árni og Pétur skipulögðu starfsemina og gáfu öðrum starfsmönnum fyrirmæli.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, en dómurinn var birtur í dag eftir að dómur féll á þriðjudag. 

Umfangsmikið mál

Málið er umfangsmikið en dómurinn telur 87 blaðsíður. Lögreglan lagði hald á um sex kíló af fíkniefnum, hátt í 40 milljónir króna, peningatalningavélar, auk verulegs magns vopna, þar á meðal hin ýmsu skotvopn, sverð, fimm axir og fjölda stunguvopna. 

Samtals voru 18 manns ákærðir í málinu vegna innflutnings, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Auk þess var horft til að um skipulagða glæpastarfsemi væri að ræða sem og peningaþvætti. 

Níu sakborninga hlutu óskilorðsbundinn fangelsisdóm í málinu. Jón Ingi hlaut þyngsta dóminn en hann mun sæta fangelsisvistar í sex ár. Pétur Þór og Árni Stefán hlutu báðir fjögurra ára dóm.

Haukur Ægir Hauksson og Gunnlaugur J. Skarphéðinsson fengu fimm ára dóm og þau Thelma Rún Ásgeirsdóttir, Tinna Kristín Gísladóttir, Valgerður Sif Sigurðardóttir hlutu öll þriggja ára dóm.

Miklu meira en bara yfirmaður

Í dómnum er farið yfir samskipti Jóns Inga við Árna Stefán þar sem þeir ræða saman um fíkniefnaviðskipti og starfsemina. Ræða þeir einnig um aðra starfsmenn og frammistöðu þeirra. Fara þeir einnig yfir um að færa fólk til í starfi til að villa fyrir lögreglu og að einhverjir starfsmenn ættu að fá auka hlutverk. 

Í gögnum málsins liggja fyrir hljóðritanir af samtölum Jóns Inga við annan óþekktan aðila um starfsemina, hlutverk meðlima hópsins og fyrirætlanir varðandi það. Þar kom meðal annars fram að Jón Ingi er einhverskonar yfirmaður starfseminnar: 

„Málið er að maður er miklu meira en bara yfirmaður. Maður er bara með einhvern svona hóp og maður er bara svo mikið fyrir hlutverkið, ég tek því bara eins og það er.“

Dómurinn telur því sannað að þeir sem tóku þátt í starfseminni höfðu tilteknu hlutverki að gegna ásamt því að þau stóðu saman að brotunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert