Jafningjafræðsla á meðferðarganginum

Mikilvægt stuðningsverkefni og margt var því um að ræða meðal …
Mikilvægt stuðningsverkefni og margt var því um að ræða meðal þeirra sem mættu í fangelsið í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfboðaliðar verða mönnum á meðferðargangi í fangelsinu á Litla-Hrauni til stuðnings, halds og trausts, samkvæmt því sem kynnt var í gær.

Samningur er í höfn um samstarf Fangelsismálastofnunar og Afstöðu, sem er félag fanga og áhugafólks um bætt fangelsismál og betrun. Inntak hans er að fólk á vegum félagsins, alls um 20 manna hópur, mæti reglulega á meðferðarganginn og veiti föngunum stuðning. Þar er um að ræða menn sem komnir eru á beina braut og halda sig frá vímuefnaneyslu í fangavist.

Vist á meðferðargangi hefur lengi tíðkast á Litla-Hrauni þó að slíkt hafi ekki boðist allra síðustu mánuði. Nú er þráðurinn aftur tekinn upp og á ganginum er pláss fyrir níu fanga, sem þar hafa meðal annars aðgang að útivistarsvæði sem þeim einum tilheyrir. Einnig eru á gangi þessum skapaðar aðstæður til að menn geti verið þarna að nokkru leyti út af fyrir sig og einbeitt sér að bata.

„Samstarfið gerir okkur mögulegt að koma til móts við fanga í aðstæðum sínum,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu. „Verkefnið verður að stórum hluta jafningjafræðsla, sinnt af þeim sem hafa áður verið fangar. Einnig kemur fagfólk að málum, en inntakið er áhugahvetjandi samtöl. Stuðningur til lífs án vímuefna er þarna í aðalhlutverki, en einnig ýmis fræðsla sem ætti að hjálpa mönnum að fóta sig úti í samfélaginu eftir afplánun.“

Endurhæfing er mikilvæg

„Virk endurhæfing í fangelsum er afar mikilvæg,“ segir Halldór Valur Pálsson, fangelsisstjóri á Litla-Hrauni. „Starfsfólk fylgist eðlilega með lífi og líðan hvers fanga. Útkoman úr því ræður hvort menn komist eða eigi erindi á meðferðargang, sem á að vera eftirsóknarvert. Allur gangur getur svo verið á því hvar menn eru staddir þegar og ef þeir fara á ganginn. Sumir eru nærri því að ljúka afplánun eða fara út á reynslulausn. Aðrir eru á leiðinni í opið fangelsi.“

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert