Tryggvi Már Sæmundsson, ritstjóri Eyjafrétta, segir Vestmannaeyjabæ halda upplýsingum frá miðlinum varðandi samninginn við listamanninn Ólaf Elíasson.
Eins og greint hefur verið frá vinnur Ólafur að minnisvarða um eldgosið á Heimaey. Tryggvi skrifaði athyglisverða viðhorfsgrein á vef Eyjafrétta í gær.
„Eyjafréttir óskuðu eftir að fá samning sem gerður var á milli Vestmannaeyjabæjar og Stúdíós Ólafs Elíassonar um gerð listarverks/minnisvarða á og við Eldfell.
Samningurinn fékkst afhentur en búið er að strika yfir hluta texta skv. beiðni viðsemjenda Vestmannaeyjabæjar með þeim rökstuðningi að um sé að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni. Þá vantar í gögnin viðbætur A og B, sem sýna hvernig listaverkið muni líta út,“ skrifar Tryggvi í inngangi greinarinnar.
Fram kemur í svari Drífu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar til Eyjafrétta að það byggi á 9. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.
Í greininni er einnig fullyrt að spurningum um ýmsan kostnað í tengslum við verkefnið sé ósvarað. Til dæmis lagning göngustígs, gerð bílastæðis og fleira.