Upplýsingar um vinnu Ólafs Elíassonar sagðar einkahagsmunir

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Sigurður Bogi

Tryggvi Már Sæmundsson, ritstjóri Eyjafrétta, segir Vestmannaeyjabæ halda upplýsingum frá miðlinum varðandi samninginn við listamanninn Ólaf Elíasson. 

Eins og greint hefur verið frá vinnur Ólafur að minnisvarða um eldgosið á Heimaey. Tryggvi skrifaði athyglisverða viðhorfsgrein á vef Eyjafrétta í gær. 

„Eyjafréttir óskuðu eftir að fá samning sem gerður var á milli Vestmannaeyjabæjar og Stúdíós Ólafs Elíassonar um gerð listarverks/minnisvarða á og við Eldfell.

Samningurinn fékkst afhentur en búið er að strika yfir hluta texta skv. beiðni viðsemjenda Vestmannaeyjabæjar með þeim rökstuðningi að um sé að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni. Þá vantar í gögnin viðbætur A og B, sem sýna hvernig listaverkið muni líta út,“ skrifar Tryggvi í inngangi greinarinnar. 

Listamaðurinn kunni Ólafur Elíasson.
Listamaðurinn kunni Ólafur Elíasson. mbl.isÁsdís Ásgeirsdóttir

Fram kemur í svari Drífu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar til Eyjafrétta að það byggi á 9. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.

Í greininni er einnig fullyrt að spurningum um ýmsan kostnað í tengslum við verkefnið sé ósvarað. Til dæmis lagning göngustígs, gerð bílastæðis og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert