Ákvað að stíga fram og berskjalda sig

Grímur á eftir að sakna lögreglustarfsins en er fullur tilhlökkunar …
Grímur á eftir að sakna lögreglustarfsins en er fullur tilhlökkunar fyrir nýjum verkefnum. mbl.is/Karítas

Grímur Grímsson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar og fráfarandi yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er nú í óða önn að pakka niður á skrifstofunni sinni á lögreglustöðinni á Hverfisgötu.

Honum hefur verið tilkynnt að hann sé orðinn þingmaður og þá er hann ekki lengur lögreglumaður. 37 ára farsælum ferli í lögreglunni er lokið og ný verkefni handan við hornið. Hann er fullur tilhlökkunar en á eftir að sakna lögreglustarfsins, enda starfið skemmtilegt og félagsskapurinn frábær.

„Ég er bara spenntur að takast á við ný verkefni. Þó ég sé ekki háværasti maðurinn á kaffistofunni, þá er það þannig þegar maður ákveður að gera þetta þá stígur maður út fyrir sinn þægindaramma. En það er líka dálítið gaman að ögra sér. Jafnvel þó ég hafi verið í sama starfinu í öll þessi ár, þá hef ég alltaf annað slagið ögrað mér,” segir Grímur og og rifjar upp langan ferilinn í nokkrum setningum.

Ílengdist í sumarstarfinu í 37 ár

Í fyrstu starfaði hann hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fór svo til Ísafjarðar þar sem fjölskyldan bjó í sjö ár, svo tók hann þátt í rannsóknum og starfaði hjá embætti sérstaks saksóknara áður en hann fór til Hollands þar sem hann starfaði hjá Europol í þrjú ár.

„Það er gaman aðeins að ögra sér og það heldur manni, vil ég segja, ferskum í sinni. Það er ákveðin hætta á því að maður leyfi sér að staðna.” 

Það var ekki æskudraumur Gríms að verða lögreglumaður, heldur réð tilviljun því að hann sótti um sumarstarf hjá lögreglunni árið 1987 sem hann ílengdist svo í, næstu 37 árin eða svo. Þá var hann í efnafræði í Háskólanum. Það hafði þó blundað í honum að prófa lögreglustarfið, en að gera það að ævistarfi var ekki eitthvað sem hann sá fyrir. Hann fann hins vegar fljótt hve vel starfið átti við hann og þá var ekki aftur snúið.

„Við erum nokkrir sem hófum sumarstörf í lögreglunni í háskólanámi og erum bara ennþá í því,“ segir hann og hlær.

„Ég lenti á frekar lítilli vakt í umferðardeildinni í Reykjavík, ofsalega góðir félagar og við eigum ennþá okkar samfélag þessi litli hópur. Það skipti mig miklu máli, og ég held það sé þannig almennt hjá lögreglumönnum, að þá skipti þessi félagsskapur miklu máli. Það var því fljótlega um sumarið sem ég ákvað að ég vildi vera í þessu.“

Grímur hefur starfað hjá lögreglunni meira og minna síðan, fyrir utan eitt ár þegar hann starfaði á endurskoðunarskrifstofu Deloitte.

Erfitt að hætta í lögreglunni

Kosninganóttin fyrir viku síðan var töluverð rússíbanareið fyrir Grím, hann var ýmist inni eða úti af þingi, aðallega úti og virtust aðeins nokkur atkvæði til eða frá stýra stöðunni. Það var ekki fyrr en um klukkan eitt á sunnudag, þegar allra síðustu tölur skiluðu sér að það lá fyrir að hann var kominn inn á þing sem jöfnunarmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Þó hann sé spenntur fyrir nýjum verkefnum þá er líka erfitt að kveðja og hann fyllist söknuði við tilhugsunina um að kveðja lögreglustarfið og kollegana, sem hann hefur starfað með árum og jafnvel áratugum saman, mörgum hverjum. 

„Jú, það er bara mjög erfitt. Ég hef átt mjög farsæla starfsævi. Á svona löngum tíma þá kynnist maður svo mörgum. Ég kem klárlega til með að sakna þessa starfs. Þrátt fyrir að það séu ekki öll verkefni skemmtileg þá er þetta skemmtilegt starf. Það myndast mikill félagsskapur, sem er kannski það sem flestir lögreglumenn leggja hvað mest upp úr. Mesti stuðningurinn er þessi félagastuðningur, þá er ég ekki að tala um þennan formlega sem er til, heldur líka bara að vera saman á bíl eða vera saman að rannsaka mál.“

Umfangið vaxið mikið síðustu ár

Hann segir gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað í löggæslu og á þeim 37 árum sem hann var í lögreglunni. Löggæslan sé flókin starfsemi, eflaust töluvert flóknari en almenningur gerir sér grein fyrir. Þá hafi flækjustigið bara aukist með nýrri tækni og fjölbreyttari glæpum.

Í ofanálag sé skipulögð brotastarfsemi, sem Grímur hefur haft á sinni könnu undanfarin ár, töluvert skipulagðari en fólk gerir sér grein fyrir.

„Auðvitað eru sum afbrot bara eitthvað sem fólki dettur í hug að gera, þó það sé að flytja inn fíkniefni, en sumt er mjög skipulagt.“

Umfang skipulagðrar brotastarfsemi hefur vaxið mikið hér á landi á síðustu árum og er það nú sú ógn sem íslensku þjóðfélagi er talin stafa hvað mest hætta af, fyrir utan náttúruhamfarir, samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra. 

Í þessu samhengi rifjar Grímur upp timburmálið svokallaða, eitt umfangsmesta fíkniefnamál sem komið hefur upp hér á landi. Tæp 100 kíló af kókaíni fundust í gámi í Hollandi árið 2022, en efnunum hafði verið komið fyrir í trjádrumbum sem komu frá Brasilíu og átti svo að flytja hingað til lands. Lögreglan skipti efnunum hins vegar út fyrir gerviefni og voru þau flutt í trjádrumbunum til Íslands. Þannig tókst að hafa uppi á þeim sem voru viðriðnir málið hér á landi.

„Þetta eru upplýsingar sem við vinnum með og fáum í starfi okkar, en komu líka fram í þessum EncroChat samskiptum sem voru fræg á árunum 2020 til 2021. Þar sjáum við þetta skipulag sem afbrotamenn eru með, sérstök dulkóðuð samskipti. Þó að í þessu tilfelli hafi lögreglu erlendis, í Frakklandi og Hollandi, með aðstoð frá Europol, tekist að komast inn í þessi samskipti, þá eru menn enn að nota dulkóðuð samskipti,“ segir Grímur.

„Þetta skipulag felst líka í því að það er allt notað sem fólki dettur í hug að nota. Það eru dulkóðuð samskipti, gervigreind og afbrot á netinu. Það varð mikil breyting á netbrotum í Covid. Menn færðu sig töluvert mikið inn á netið og eru að svíkja fólk,“ segir Grímur og vísar til ýmiskonar brota, meðal annars þar sem samfélagsmiðlar eru nýttir til að nálgast fólk.

Fékk margar vinabeiðnir frá ungum konum

Sjálfur hefur Grímur ekki verið sá virkasti á samfélagsmiðlum en reyndi að bæta úr því í kosningabaráttunni. Það var ákveðin upplifun fyrir hann að kynnast þeim heimi.

„Ég hef svolítið gaman af því, þegar ég fór í framboð þá ákvað ég að reyna að vera aðeins sýnilegri á samfélagsmiðlum, sem er mér ekki tamt. En vinabeiðnirnar sem maður fær, þær eru mjög mikið frá ungum konum. Svo ef maður skoðar aðeins betur prófílinn, þá er vissulega mynd af ungri konu, en hann er kannski stofnaður í morgun og á sjö vini,“ segir Grímur kíminn.

„Þannig það er nokkuð ljóst að þarna er um einhverskonar scam að ræða. Þetta er bara byrjunin og þó það takist bara að húkka einn þá er það árangur fyrir brotamennina. Annað hvort eru þetta einhver tæki eða fólk sem er í einhverjum tölvuverum að senda út svona vinabeiðnir,“ útskýrir hann.

Spurður hvort það verði ekki flóknara og erfiðara fyrir lögregluna þegar brotamenn eru farnir að nýta sér tæknina svo mikið og raun ber vitni, segir hann það vissulega vera. Samvinna á milli stofnana og ríkja skipti hins vegar lykilmáli þegar kemur að því að upplýsa glæpi.

Snýst um samskipti og að deila upplýsingum

Grímur starfaði, líkt og áður sagði, í þrjú ár hjá Europol, en Íslendingar hafa átt þar fulltrúa frá árinu 2007.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að eiga þann fulltrúa. Alveg nýlega þá ákváðu stjórnvöld líka að senda fulltrúa til Eurojust, sem er Kolbrún Benediksdóttir saksóknari. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þessa alþjóðasamvinnu. Svo tökum við þátt í Frontex landamæraeftirlitinu. Þannig það er víða sem við tökum þátt, en þetta er lítil þátttaka samanborið við önnur lönd.“

Grímur bendir þó að Ísland sé einnig í samstarfi við lögreglu og tollayfirvöld á Norðurlöndum, sem hafi komið sér mjög vel.

„Baráttan við brotastarfsemi snýst um samskipti og að deila upplýsingum,“ ítrekar hann.

Grímur segir það hafa verið mjög áhugavert að starfa hjá Europol, sem er löggæslustofnun Evrópusambandsins, en mörg lönd utan sambandsins eiga einnig tengslaafulltrúa þar með sérstökum samningum.

„Tengslafulltrúarnir eru eins og lögreglusendiráð, vegalengdirnar eru svo stuttar. Maður getur brugðið sér bara yfir einn gang til að tala við Brasilíu eða Svíþjóð. Auðvitað er það þannig að það er talað óformlega, en þegar verið er að óska eftir upplýsingum þá þarf það að koma eftir formlegum leiðum. En þetta styttir mjög leiðirnar þegar maður getur talað við þá sem maður þekkir. Þetta hefur Europol fram yfir Interpol. Þar starfar fólk sem er sent þangað úr sínum heimalöndum en starfar svo undir stjórn Interpol.“

Verðum að hafa möguleika á að verjast

Grímur hefur mikinn áhuga á öryggismálum í sinni víðustu mynd; öryggi ríkisins, löggæslu, tollgæslu, landhelgisgæslu og fleiru.

„Öryggismál í heild sinni er eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á, þar með talið og ekki síst netvarnir. Mig langar svolítið að beina kröftum mínum þangað vegna þess að við erum í umhverfi sem er mjög sérstakt. Við erum í ofsalega friðsömu samfélagi hér og finnum lítið fyrir stríði í Evrópu nema þegar það kemur hingað fólk sem er að flýja undan stríði.“

Hann bendir á að Svíar hafi verið að gefa út leiðbeiningabæklinga til almennings um hvernig eigi að bregðast við í stríði.

„Auðvitað meta Svíar það ekki þannig að það séu miklar líkur á stríði í Evrópu, en það eru einhverjar líkur og þær hafa aukist. Þetta er líka eitthvað sem við þurfum að horfa til, ófriður getur aukist í Evrópu og ég held að hann geti aukist ekki síst í þessu. Að netið verði notað. Við erum meira og minna orðin svakalega háð netinu. Ef maður veltir fyrir sér hvort væri hægt að gera okkur sambandslaus með einhverjum hætti, bæði innanlands og utan. Þær varnir eru allavega mjög mikilvægar.“

Hann segir því mikilvægt að styrkja lögreglu svo hún sé betur í stakk búin til að rannsaka netbrot. Að fólk hafi þekkingu, reynslu og færni til að rannsaka þau.

„Hjá herlausri þjóð er það lögreglan og eftir atvikum aðrar stofnanir sem koma að vörnum landsins og þær þurfa þá að hafa hafa möguleika á að verjast. Við verðum að vera viðbúin því að þetta séu ekki örfáar stöður, þetta er eitthvað sem þarf að setja svolítið í. Af því við erum hluti af NATO þá er talað um að NATO-þjóðir eigi að nota um tvö prósent af landsframleiðslu við varnir en við erum langt innan við eitt prósent. Við verðum að huga að þessu.“

Vonar að það þurfi ekki allir að vera eins

Það er gjarnan þannig að þeir sem veljast á þing eru skoðanasterkir og jafnvel háværir, bæði í góðra vina hópi og á meðal almennings. Svo virðist ekki vera með Grím, hann hefur vissulega skoðanir og lætur þær í ljós í smærri hópum, en hávær er hann ekki og er lítið að trana sér fram. En hvað var það sem kveikti áhuga á hans á pólitík og varð til þess að hann ákvað að feta sig inn á þessa braut?

„Það er þessi reynsla sem ég hef sem dregur mig að því, það að vilja láta gott af mér leiða á þessum sviðum. Að möguleiki sé á því að gera það í pólitík. Ég vona að það þurfi ekki allir stjórnmálamenn að vera eins. Sumir eru háværir og taka mikið pláss, aðrir geta unnið með öðrum hætti,“ segir Grímur hógvær. En ljóst er að reynsla hans af löggæslustörfum og þekking á innra starfi lögreglunnar mun nýtast vel á þingi.

„Ég ákvað að stíga núna fram og upplýsa það, eða berskjalda mig með það að ég hafi skoðanir og hverjar þær eru. Þá verður maður líka að vera tilbúinn að verja þær. Það eru ekki allir á sömu skoðun. En það er óumdeilt pólitískt hvað ég hef verið að gera.“

Nýtur sín í útvist og með fjölskyldunni

Þegar Grímur er ekki í vinnunni finnst honum gott að hreyfa sig og stunda útivist. Hann hefur mikinn áhuga á hjólreiðum, þó hann hafi ekki sinnt áhugamálinu nógu mikið upp á síðkastið. Hann og konan hans eru hópi sem hittist reglulega og hjólar saman og fara þau einu sinni á ári í nokkurra daga hjólaferð

Þá nýtur hann þess að eyða tíma með fjölskyldunni. Þau hjónin eiga sex barnabörn sem fá stundum að vera í dekri hjá afa og ömmu. Grímur er meðvitaður um að mögulega sé hann að spilla uppeldinu barnanna að einhverju leyti. „Ég held reyndar að krakkar geri sér fyllilega grein fyrir því að þó eitt sé að gerast hjá afa og ömmu þá er það ekki endilega að fara að gerast heima. Krakkar eru klárir,“ segir hann og brosir.

Nánar verður rætt við Grím Grímsson um helgina og munu fleiri kaflar úr viðtali við hann birtast hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert