Björgunarsveitarmenn á vegum Landsbjargar eru á leið upp að Kerlingarfjöllum en þar lenti fólk í vandræðum á nokkrum bílum og þá stóð björgunarsveitin Lífsbjörg á Snæfellsnesi í ströngu í nótt.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að óskað hafi verið eftir aðstoð rétt fyrir klukkan 7 í morgun vegna jeppafólks sem lent hafi í vandræðum og fest bíla sína. Þá sé eldsneyti og vistir af skornum skammti enda hópurinn búinn að vera á staðnum í um sólarhring.
„Þar sem er óvissa ríkir um færðina þá erum við að senda talsvert af tækjum og meðal annars snjóbíla,“ segir Jón Þór.
Í nótt fór björgunarsveitin Lífsbjörg til aðstoðar ökumönnum sem lent höfðu í vandræðum við Fróðá, Búlandshöfða og á Fróðárheiði en fyrsta beiðni barst klukkan hálf eitt í nótt. Frá þessu er greint á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar.
„Nokkrir bílar voru losaðir og sumum snúið við eftir smá samtal eða aðstoðaðir við að komast í gistingu. Verkefnum næturinnar lauk rétt fyrir 4 þegar síðustu björgunarmenn komu í hús. Alls fóru 6 félagar á 2 bílum í þessi verkefni,“ segir í færslunni.