Grímur Grímsson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar og fráfarandi yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur stöðu sinnar vegna verið andlit lögreglunnar út á við í mörgum erfiðum og áberandi málum sem þjóðin hefur öll fylgst með.
Hann hefur birst í fjölmiðlum sem traustvekjandi og yfirvegaður, ekki maður margra orða en þó sagt það sem skiptir máli. Hann reynir að brynja sig upp í erfiðum málum, eins og hægt er. Grímur hefur aldrei óttast um líf sitt í starfi sínu en upplifði mikil ónot eftir að komið var inn í garðinn hans í fyrra og skemmdarverk unnin á bílnum hans.
En hvernig er það að vera andlit lögreglunnar út á við og á sama tíma að takast á við rannsókn á erfiðum málum?
„Ég hef þannig lagað aldrei sett mig í einhvern sérstakan gír til þess. Þetta er bara hlutverk sem ég hef fengið og reynt að sinna. Það er eins og svo margt í lögreglunni, við erum fáliðuð en við erum samt sem áður með alla þætti sem eru hjá stærri og fjölmennari liðum. Hjá okkur er það þannig að menn eru með marga hatta og þurfa að bregða sér í það að svara fyrir mál og svoleiðis,“ segir Grímur.
„Það sem mér hefur fundist skipta máli þegar ég er að svara fyrir mál er að þeir sem eru ofan í rannsókninni sjálfri og eru að stýra því að þeir fái þann frið sem þeir þurfa til að geta einbeitt sér.“
Óvenju mörg manndrápsmál hafa komið upp hér á landi á þessu ári, en um er að ræða átta manndráp í sjö málum.
Aðspurður hvort hann telji að slíkum málum sem almennt að fjölga eða hvort þetta ár sé einstakt hvað þetta varðar, segist Grímur vilja fara varlega í að draga ályktanir út frá einu ári. Það væri betra að skoða stöðuna í lok næsta árs.
Afbrotafræðingar hafa hins vegar bent á að það að svo mörg manndrápsmál komi upp á einu ári sé frávik sem verði að horfa til og er Grímur sammála því.
Þá bendir hann líka á að það hafi komið ár þar sem engin manndrápsmál hafi komið upp.
„En þetta er vissulega frávik og það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af þessu, en ég vil ekki draga of miklar ályktanir strax.“
Grímur segist reyna að taka ekki inn á sig erfið mál sem hann hefur þurft að leysa og upplifir gjarnan að hann hafi ekki rétt að verða fyrir áfalli. Það skipti máli að eiga góða félaga með sameiginlega reynslu til að ræða við.
„Þessi mál sem hafa verið á þessu ári, þetta eru nú þegar orðin átta manndráp í sjö málum, og fjögur á höfuðborgarsvæðinu. Í þremur þessara málum þá tengist það börnum eða mjög ungu fólki. Það er eitthvað sem maður reynir að brynja sig fyrir meðan á því stendur, en auðvitað fær þetta á lögreglumann eins og aðra. Það er alveg staðreynd. Sem betur fer hefur okkur borið gæfu til þess að vera með stuðning við fólk sem fer í svona mál,“ segir Grímur. Sumir vilji hins vegar frekar vinna sjálfir úr málunum. Þá sé félagastuðningurinn gríðarlega mikilvægur í svona erfiðum málum, að geta talað við einhvern sem hefur svipaða reynslu.
„Þetta er auðvitað margslungið því manni finnst oft á tíðum að maður hafi ekki endilega rétt á að hafa lent í áfalli. Áfallið er fyrir aðstandendur þess sem er dáinn eða þess sem er valdur að dauða, áfallið er auðvitað þeirra. En þá finnur maður til þess að maður hafi engan rétt á að hafa lent í áfalli. Það er tilfinning sem ég hef oft haft.“
Hann segist yfirleitt ná að komast í þann gír að vera hlutlægur bæði í útkallinu og rannsókninni, og skila henni af sér þannig að niðurstöðurnar séu viðunandi.
Þá finnst honum mikilvægt að hreyfa sig og að njóta þess að vera með fólkinu sínu, til að kúpla sig aðeins frá vinnunni, við rannsókn á erfiðum málum.
Sem betur fer hefur hann sjaldan upplifað það að honum sé ógnað eða í raunverulegri hættu starfs síns vegna. En fyrir tæpu ári síðan kom upp atvik sem honum fannst mjög óþægilegt og vakti hann til umhugsunar um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar. Um var að ræða skemmdarverk á bifreið í eigu Gríms sem stóð við heimili hans.
Litið er á slíkt mál sem brot gegn valdstjórninni og hefur það verið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.
„Í desember í fyrra kom hérna maður í gegnum garða og spreyjaði lakki á bílinn minn. Í framhaldinu upplifði ég að það væri auðvelt að komast að því hvar ég ætti heima og að það væri auðvelt að skemma eigur mínar. Ég er ekki að segja að ég hafi upplifað hræðslu á þessum tíma, en þetta voru svona ónot. Svo verð ég að hugsa að ég er ekki einn í heimili. Ég upplifði það að krakkarnir mínir urðu reiðir yfir þessu. Það er líka svolítið vont þegar starfið manns er þannig að það valdi ónotum hjá fjölskyldunni. En hræðsla um það að á mig verði ráðist eða okkur, hef ég ekki upplifað,“ segir Grímur einlægur.
„Ef maður lítur á það sem einhvers konar hótun að skemma eigur manns, þá hefur hótun þær afleiðingar að maður verður á varðbergi og það er kannski tilgangurinn. Það er tilfinning sem maður myndi vilja losna við. Ég á ekki að þurfa að vera á varðbergi gagnvart neinu, en það er afleiðingin,“ bætir hann við.
Eftir þetta hefur honum fundist hann þurfa að vera meira á varðbergi en áður. „Ég passa til dæmis meira upp á að læsa og svoleiðis,“ útskýrir hann.
Þá bendir hann á að hann búi í þriggja íbúða húsi og það sé skelfilegt að hugsa til þess að nágrannar hans hafi hugsanlega upplifað óþægindi vegna starfs hans í lögreglunni.
Aldrei áður á sínum langa ferli hafði hann fengið þessa ónotatilfinningu.
„Ég hef aldrei upplifað einhvers konar hræðslu um að það sem ég væri að gera myndi valda því að einhver myndi veitast að mér.“
Grímur vísar til máls sem kom upp sumarið 2023, þegar kveikt var í bifreið konu sem vinnur við rannsóknir hjá lögreglunni, þar sem biðreiðin stóð við heimili hennar.
Um er að ræða tiltölulega nýlega ógn sem steðjar að lögreglumönnum, en mjög fá sambærileg mál hafa komið upp áður hér á landi. Grímur segir þetta mjög alvarlega þróun.
„Við tókum þessu mjög alvarlega. Þetta var svolítið högg fyrir okkur öll. Þegar einum er ógnað svona þá upplifuðu aðrir, bæði nánir samstarfsmenn og aðrir svona óöryggi.“
Þá vísar Grímur einnig til hryðjuverkamálsins svokallaða, þegar tveir menn voru grunaðir um að undirbúa hryðjuverk hér á landi. Þá lék grunur á að lögreglumenn kynnu að vera í hættu.
„Ég veit að lögreglumönnum leið mjög mörgum illa yfir því. Þannig þetta er kannski ekki alveg óþekkt að við séum undir hótunum. Okkur er auðvitað hótað en oftast er það þannig að það er ekki mikið á bakvið það. Það hefur líka verið tekið ágætlega á því, málin hafa eftir atvikum verið rannsökuð, ákært og sakfellt fyrir brot gegn valdstjórninni.“
Grímur segir mjög mikilvægt að styrkja lögregluna. Það þurfi að fjölga lögreglumönnum og starfsfólki lögreglunnar. Mikilvægt sé að að fá inn þekkingu með fólki sem ekki er endilega lögreglumenntað en vinnur við löggæslu með einum eða öðrum hætti.
„Svo er þetta líka spurning hvernig við getum notað tæknina til þess að hjálpa okkur og gervigreind til dæmis. Við þurfum að horfa til þess sem er verið að gera annars staðar. Það er víða töluverð þróun í löggæslu, ekki síst á þessum vettvangi. Lögreglumaðurinn verður alltaf sá sem er í framlínunni hjá okkur, ekki tæknin, nema að litlu leyti.“
Þá segir hann mikilvægt að það fari fram mat á því hvernig megi fá sem mest út úr löggæslunni.
Líkt og greint hefur verið frá er skipulögð brotastarfsemi sú ógn sem íslensku samfélagi er talin stafa hvað mest hætta af, fyrir utan náttúruhamfarir. En hún margvísleg og birtist með ýmsum hætti.
„Varðandi skipulagða brotastarfsemi þá þekkjum við að fíkniefni eru stærsti þáttur í skipulagðri brotastarfsemi, innflutningur og dreifing á fíkniefnum. Síðan hafa netbrotin verið að aukast. Þá er það ekki endilega einhver hér sem er að brjóta af sér, hann getur verið annars staðar. Svo tengist þessari starfsemi ágóðinn.“
Hann bendir á að erlendar stofnanir sem Íslendingar eru aðilar að leggi mikla áherslu á að rannsaka peningaþvætti og að leggja hald á ólögmætan ávinning.
En það er fleira sem þarf að gefa meiri gaum að. Falið vandamál sem þarf að uppræta með markvissari hætti.
„Akkúrat í náinni framtíð þá held ég það sem við verðum að horfa til, varðandi skipulagða brotastarfsemi, það er mansal. Ég er hræddur um að það sé dálítið falið vandamál hér á Íslandi, sérstaklega vinnumansal. Það eru ekki alltaf skýr skil á milli þess sem er vinnumansal og félagslegt undirboð á vinnumarkaði. Þarna þurfum við að geta verið í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins og þá sem koma að þessu með einum eða öðrum hætti.”
Hann segir yfirstjórn lögreglunnar sammála um að beina löggæslunni þangað sem skaði einstaklingsins er mestur. Hann geti verið mikill þegar verið sé að brjóta á fólki með þeim hætti að það sé látið vinna myrkranna á milli, sjö daga vikunnar, fyrir lítil sem engin laun og hafi lélegan aðbúnað.
Vinnumansalið hafi verið að aukast síðustu ár, en Grímur tekur fram að með því að minnast á það sé hann ekki að gleyma mansali sem tengist vændissölu.
„Það er oft mjög alvarlegt og fylgifiskur þess er oft töluvert mikið ofbeldi. Ég er kannski ekki að tala um glæpaklíkur á Íslandi í þessu samhengi, en erlendar glæpaklíkur, með bakgrunn í Afríku eða Asíu, þau beita mjög miklu ofbeldi innan samtakanna, gegn meðlimunum.“
Hann tekur sem dæmi að kona sé hugsanlega plötuð til Evrópu í með von um vinnu, en þegar þangað er komið sé hún seld í vændi. Að einhverjum tíma liðnum geti hún svo orðið sú sem brýtur á öðrum.
„Það er svo erfitt við þetta að eiga því fólkið veit hvað það hefur. Það kemur ekki frá löndum þar sem það treystir yfirvöldum eða lögreglu. Þess vegna er svo erfitt að fá fólk til að tala um þetta og það þarf að rannsaka þessi mál oft án þess að brotaþolinn segi neitt. Flækjustigið í svoleiðis málum er mikið. En það er mjög mikilvægt að við reynum að auka aðkomu okkar að svona málum.“
Nánar verður rætt við Grím Grímsson um helgina og kaflar úr viðtalinu munu birtast hér á mbl.is.