„Ég kom hér til starfa síðsumars 2023, þannig að ég mætti fyrst á þessa tónleika fyrir jólin í fyrra og komst hreinlega við, þetta var svo vandað og fallegt. Ekki spillti heldur fyrir að það mættu meira en 400 manns og hlýddu á dásamlega jólaefnisskrá. Mín trú er sú að þetta verði ekki síðra núna.“
Þetta segir Clarissa Duvigneau, sendiherra Þýskalands á Íslandi, en sendiráðið stendur á föstudaginn kemur kl. 20 fyrir jólatónleikum í Vídalínskirkju í Garðabæ til styrktar Landsbjörg. Þetta er í tíunda sinn sem tónleikarnir er haldnir.
Með okkur situr Sabine Friðfinnsson, sem lengi hefur starfað í sendiráðinu, og Duvigneau segir hana hafa haft veg og vanda af skipulagningu tónleikanna enda þekki hún íslenskt tónlistarlíf afar vel. Sabine kveðst hafa farið á breiddina að þessu sinni, allt frá óperu yfir í popp, en markmiðið var að leiða saman listamenn sem jafnvel hafi aldrei unnið saman. „Við erum mjög spennt fyrir þessum hópi.“
Fram koma Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gissur Páll Gissurarson, Einar Örn Magnússon, Matthías Helgi Sigurðarson, Kristinn Sigmundsson, Helga Bryndís Magnúsdóttir og Jóhann Baldvinsson, ásamt Mótettukórnum og Korsilettunum.
Ókeypis er inn en gestum er velkomið að láta frjáls framlög af hendi rakna sem renna óskipt til Landsbjargar. Þær taka fram að allir séu velkomnir, hvort sem þeir eru aflögufærir eður ei, lykilatriðið sé að njóta, skemmta sér vel saman og fagna hátíð ljóss og friðar.
Sabine þakkar bæði Garðabæ og Vídalínskirkju fyrir dygga aðstoð við framkvæmd tónleikanna, án velvilja þeirra hefði þetta ekki verið hægt.
Spurð hvers vegna Landsbjörg hafi orðið fyrir valinu svarar Duvigneau: „Landsbjörg er með um 4.500 sjálfboðaliða á sínum snærum sem er meira en 1% þjóðarinnar. Það er mjög tilkomumikið. Allt er þetta fólk sem er tilbúið að leggja mikið á sig og jafnvel stofna sér í hættu til að hjálpa öðrum. Það er virðingarvert. Það eru ekki bara Íslendingar sem njóta góðs af þessu starfi, hingað kemur árlega mikill fjöldi erlendra ferðamanna, þar á meðal margir þýskir. Veðrið og stórbrotin náttúran geta verið grimm hér um slóðir og fyrir vikið nauðsynlegt að geta brugðist hratt við. Það gleður okkur mjög að geta lagt þessu starfi lið.“
Nánar er rætt við þýska sendiherrann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um tónleikana og sitthvað fleira.
Reikningsnúmer fyrir þá sem vilja styrkja málefnið: B: 0133-26-000555. Kt: 560499-2139. Skýring: Jól.
https://fb.me/e/5SnrmVyD9