Umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað um rúmlega helming það sem af er ári ef miðað er við síðustu tvö ár. Breytt afstaða stjórnvalda til hælisumsókna frá Venesúela og ný útlendingalög hafa haft þar áhrif. Þrátt fyrir að umsóknum frá Úkraínu hafi fækkað er Útlendingastofnun þó meðvituð um að möguleiki sé á því að þeim muni fjölga að nýju.
„Umsóknir frá Úkraínu geta verið sveiflukenndar eftir framgangi mála í stríðinu en umsóknir þaðan hafa verið nokkuð stöðugar um nokkurt skeið.“ Að sögn Þórhildar Hagalín, upplýsingafulltrúa hjá Útlendigastofnun. Að sögn hennar liggja ekki fyrir upplýsingar um það hvort stærsti hluti hópsins frá Úkraínu hafi verið búsettur nærri víglínu stríðsins í austurhluta Úkraínu.
„En varðandi umsóknir frá Venesúela, þá hefur haft mest áhrif að kærunefnd útlendingamála staðfestir ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja þeim um vernd,“ segir Þórhildur Hagalín. Þá er við þetta að bæta að tæplega 1200 manns óskuðu eftir aðstoð við sjálviljuga heimför á síðasta ári. Langstærsstur hluti þess hóps er fólk frá Venesúela eða 925. Til samanburðar báðu 636 eftir aðstoð við heimför árið 2023 en 81 árið 2022.
Hópurinn sem tilgreindur er sem önnur upprunaríki nær til þeirra sem hafa uppruna utan Schengensvæðisins. Umsóknum hefur fækkað um tæplega helming. „Þetta er fyrst og fremst fólk sem er að ferðast innan Schengensvæðisins. Fólk sem kemur hingað eftir að það er búið að sækja um vernd í öðru ríki eða hefur jafnvel þegar fengið vernd í öðru ríki,“ segir Þórhildur. Hún segir ekki gott að álykta til um það hvers vegna umsóknum hefur fækkað svo mikið í þessum hópi.