Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna vinds og asahláku fyrir daginn í dag á Vesturlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Gular viðvaranir eru í öðrum landshlutum.
Búast má við hættulegum akstursskilyrðum vegna mikillar hálku og vinds og ekki er ráðlagt að vera á ferðinni í dag.
Það verða sunnan 15-28 m/s í dag, hvassast norðvestan til. Dálítil rigning eða súld, en talsverð rigning um landið sunnan- og vestanvert síðdegis. Yfirleitt verður þurrt á Norður- og Austurlandi. Hlýnar í veðri, hiti verður víða 5 til 10 stig seinnipartinn.
Á morgun verður minnkandi suðvestanátt, 10-18 um hádegi og styttir víða upp. Skúrir eða slydduél seinnipartinn, hvessir aftur fyrir norðan um kvöldið og kólnar, hiti verður 0 til 5 stig.