Héraðssaksóknari hefur ákært 33 ára gamlan karlmann frá Litháen fyrir að bana samlanda sínum í sumarhúsi í Kiðjabergi í uppsveitum Árnessýslu í apríl. Hann er ekki ákærður fyrir manndráp.
Ríkisútvarpið greinir frá.
Upphaflega voru fjórir menn handteknir þann 20. apríl en tveimur var síðan sleppt. Hinir tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald en öðrum var síðar sleppt. Maðurinn sem lést var á fertugsaldri en hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila á staðinn.
Maðurinn var grunaður um manndráp og þannig var rannsókn háttað lengst af. Hins vegar hefur hinn ákærði nú verið ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða.
Saksóknari metur það sem svo að hinum ákærða hafi ekki endilega verið ljóst að barsmíðarnar myndu leiða til dauða mannsins.
Í frétt RÚV er ákæran reifuð og þar segir að hinn ákærði hafi veist af hinum látna „með margþættu ofbeldi, þannig að Viktoras hlaut bana af, en atlagan beindist að höfði, hálsi og líkama Viktoras, þar á meðal með því að slá hann tvisvar í andlitið þar sem hann sat á stól, þannig að hann féll í gólfið.“
Alvarlegir áverkar á heila Viktoras leiddu til dauða hans.