„Það er mjög óvanalegt að sjá svona marga hnúfubaka í einu á þessum árstíma,“ segir Garðar Níelsson hjá hvalaskoðuninni í Hauganesi. Á mánudag var farið með 24 manna hóp á Níels Jónssyni EA og í ferðinni sáust 20 hnúfubakar.
„Þetta var alveg stórkostlegt, algjör veisla fyrir hópinn,“ segir Garðar og bætir við að 11 hnúfubakar hafi sést koma upp úr sjónum á sömu stundu.
„Það hefur verið talsverður fjöldi af hnúfubökum hérna rétt við Hauganesið, innan við Hrísey og austan við hana, núna í desember. Það er greinilega mikið æti þarna fyrir hvalina á svæðinu.“
Farið er í eina skoðunarferð á dag um kl. 11 þegar farið er að birta, en þegar myrkrið skellur á, milli þrjú og fjögur, er ekkert hægt að skoða. „Þetta er stuttur gluggi sem við höfum, en hefur gengið mjög vel.“