„Ég var búin að rannsaka íslenska sögu 18. aldar um árabil þegar ég heyrði fyrst af Árna Magnússyni frá Geitastekk, og ég fékk strax gífurlegan áhuga á sögu hans sem er stórmerkileg,“ segir Karen Oslund, sem er búin að þýða ferðasögur Árna Magnússonar og Eiríks Björnssonar víðförla, en hún segir að ferðasaga Árna sé lengri og saga hans samtvinnast mörgum stóratburðum aldarinnar á ótrúlegan máta.
„Þeir eru mjög ólíkir, Árni og Eiríkur, þótt báðir hafi lagst í ferðalög á þessum tíma, sem það var óvanalegt fyrir Íslendinga. Árni missir eiginkonu sína og dóttur í plágunni og kemur tveimur börnum sínum í fóstur áður en hann fer til Kaupmannahafnar. Hann vann síðan á Grænlandi í þrjú ár um það leyti sem landið varð nýlenda Dana. Síðan fer hann aftur til Kaupmannahafnar og ræður sig á danskt kaupskip sem var á leið til Kína.“
Karen segir að Árni hafi upplifað margt á leiðinni, því skipið sigldi fyrir Gróðrarvonarhöfða í Suður-Afríku og í Afríku þar sem hann sér þrælahald og síðan var farið til Indlands og loks til Kína. Ferðalagið tók um 14 mánuði og var gífurlega erfitt, en Árni kom til Kína 1760, fyrstur Íslendinga. Lífið í Kína er allt öðruvísi en hann á að venjast og lýsir hann því í ferðasögu sinni. Þegar hann kemur aftur til Kaupmannahafnar er hann ranglega ákærður fyrir skjalafals, en losnar úr fangelsinu með því að ganga í danska sjóherinn og berjast fyrir Katrínu miklu Rússlandskeisaraynju, en Danmörk hafði gert samkomulag um að allt að 400 danskir hermenn myndu berjast fyrir Rússa. Í þessari vist endar Árni í stríði við Ottómana í Tyrklandi og Karen segir að þar hafi hann særst. Þegar hann kom aftur til Kaupmannahafnar breyttist líf hans aftur og hann fór að kenna börnum á Vestur-Jótlandi.
„Þetta tímabil í lífi Árna er mjög tilfinningaþrungið, en hann hafði jú misst bæði konu og dóttur og í reynd tvö börn sín sem urðu eftir í fóstri á Íslandi. Hann tengist nemendum sínum mikið, en samband hans við börnin sem hann átti á Íslandi náði aldrei að verða gott þótt hann reyndi að koma á samskiptum þegar hann fór aftur til Íslands. Það endaði með því að hann dó í mikilli fátækt í Danmörku, en hafði þá skrifað ferðasöguna, 157 blaðsíður, sem er merkilegt fyrir mann sem hafði enga skólagöngu.“
Karen segir að Eiríkur víðförli hafi verið allt öðruvísi persóna og léttari en Árni. „Hann var prestssonur og vildi fara og skoða heiminn og sjá sköpunarverk drottins. Hann fór með sama skipi og Árni hafði farið með til Kína þremur árum fyrr. Eiríkur er mjög félagslyndur, fer til Indlands og reynir að ræða við fólk og í Kína talar hann við búddista. Saga Eiríks er gott mótvægi við sögu Árna, sem er dýpri því hann flýr eiginlega Ísland vegna sorgar, sem litar svolítið allt hans líf. Eiríkur er ævintýramaður, en kemst þó að þeirri niðurstöðu að kunnugleiki Kaupmannahafnar sé bestur, en þar kvæntist hann og bjó til dauðadags.“
„Ég ólst upp í Kaliforníu, en get rakið ættir mínar til Svíþjóðar,“ segir Karen Oslund, sagnfræðiprófessor við Kaliforníuháskóla. Hún er miðaldasagnfræðingur, en fékk síðan mikinn áhuga á sögu Íslands á 18. öld þegar hún var í doktorsnámi í Kaupmannahafnarháskóla.
„Ég hafði lesið Íslendingasögurnar og hef komið margoft til Íslands. Í Kaupmannahöfn fékk ég brennandi áhuga á sögu Íslands á 18. öld, því það var svo mikið að gerast. Það var krísa í landinu, mikil fátækt, eldsumbrot og plága. En á sama tíma voru margar hugmyndir að fæðast og mikil aukning varð á alþjóðlegum viðskiptum á öldinni.“
Karen hefur gefið út alls þrjár fræðibækur og verið er að safna fyrir útgáfu á þýðingu ferðasagna Árna og Eiríks á Karolina Fund, en hún verður gefin út af Nord Academic vorið 2026, á 300 ára afmæli Árna frá Geitastekk.