Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, segir uppbyggingu stærðarinnar vöruhúss við hlið fjölbýlishúss í Breiðholti mega rekja til þess að of fáar reglur og kvaðir séu í byggingarreglugerð.
Þetta sagði Dóra í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, var einnig gestur í þættinum, en hún sagði í samtali við mbl.is í gær að um algjört skipulagsslys væri að ræða af hálfu borgarinnar.
„Ég er alveg sammála Hildi í því að þetta er ekki gott og borgin ber sína ábyrgð, og þetta er til komið vegna þess að það eru of víðar byggingarheimildir, sem við sjáum að þetta er dæmi um,“ segir Dóra.
Þá heldur hún áfram: „Þú [Hildur] talar um að þetta hafi gerst því það eru of margar reglur, en þetta er bara dæmi um þar sem er svigrúm til túlkunar. Þú getur túlkað það í frábæra átt með frábærri hönnun og miklum metnaði fyrir umhverfinu þínu eða þú getur túlkað það í allt aðra átt þar sem þú sýnir ákveðið skeytingarleysi gagnvart Breiðholtinu, eins og þetta er sannarlega dæmi um að einkaaðilar hafa gert í þessu tilfelli. Þess vegna skipta reglur, kvaðir og viðmið máli.“
Dóra segir að þótt ákvörðun um lóðaúthlutunina hafi verið tekin í borgarráði í júní 2023 megi rekja upphaflegu ákvörðunina um nánd vöruhússins við íbúðarhúsnæðið til ársins 2015, og upphaflegu ákvörðunina um lóðina enn lengra aftur.
„Það hefur legið fyrir í fimmtán ár að þarna eigi að koma atvinnuhús, og að það yrði stórt, á þeim tíma var reyndar alltaf gert ráð fyrir að það yrði sjö hæðir, sem það er ekki í dag sem betur fer. Þessi nánd milli húsanna á uppruna sinn í skipulagi frá 2015. Ég þekki ekki alveg forsendur, ég var ekki í borgarstjórn þá.“
Hún segir að árið 2015 hafi verið ákveðið að íbúðarhúsnæðið ætti að vera flutt að atvinnuhúsnæðinu, og að það hafi líklegast verið að frumkvæði uppbyggingaraðila íbúðanna.
Dóra segist ekki skilja hvers vegna það sé alltaf verið að tala kerfið niður, enda sé þessi uppbygging vöruhússins að hennar mati dæmi um að einkaframtakinu sé ekki alltaf fyllilega treystandi fyrir of miklu svigrúmi.
„Það er alltaf verið að tala kerfið niður, að kerfið sé að flækjast fyrir, við eigum að skræla byggingarreglugerð, við eigum að einfalda og minnka kvaðir og vera ekki að flækjast fyrir af því að einkaframtakið leysi allt svo vel. Þetta er dæmi um að einkaframtakinu er ekki alltaf fyllilega treystandi fyrir of miklu svigrúmi og þá verðum við að tryggja kvaðirnar.“