Stjórn frjálsíþróttadeildar FH harmar þá stöðu sem aðalstjórn félagsins er komin í hvað varðar fjárreiður og rekstur Skessunnar, knatthúss félagsins í Kaplakrika.
Þetta segir í yfirlýsingu frá frjálsíþróttadeild FH.
Greint hefur verið frá að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hafi farið yfir framkvæmd úttektar á meðferð fjármuna FH á byggingartíma Skessunnar en í skýrslu Deloitte segir að ónákvæmi hafi gætt í bókhaldinu.
„Samkvæmt skýrslu sem Deloitte vann fyrir Hafnarfjarðarbæ er margt óljóst og umdeilanlegt hvað varðar bókhald og meðferð fjármuna svo vægt sé til orða tekið. Þær upplýsingar sem þar koma fram eru skellur fyrir íþróttastarfsemina í Hafnarfirði,“ segir í yfirlýsingu frjálsíþróttadeildarinnar.
„Það skal tekið fram að frjálsíþróttadeildin hefur aldrei fengið greiðslur frá Aðalstjórn FH vegna rekstrartaps enda hefur deildin kappkostað að hafa sinn rekstur réttum meginn við núllið í gegnum árin.“