Sigurður Fannar Þórsson, sem ákærður er fyrir að hafa banað dóttur sinni, Kolfinnu Eldeyju, í september, er krafinn um miskabætur til móður Kolfinnu að fjárhæð 5 milljónir króna auk vaxta frá 15. september 2024 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar.
Munu síðan dráttarvextir taka við frá þeim degi til greiðsludags.
Mál Sigurðar var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag en Sigurður mætti ekki til þingfestingarinnar og hefur þar af leiðandi ekki tekið afstöðu um sök í málinu.
Í ákærunni á hendur Sigurði, sem mbl.is hefur undir höndum, segir enn fremur að þess sé krafist að honum verði gert að greiða móður Kolfinnu útfararkostnað að fjárhæð 1,5 milljónir króna og málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málsflutningsþóknun.