Mál Kouranis tekið fyrir í Landsrétti

Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Kouranis. og Karl Ingi Vilbergsson saksóknari …
Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Kouranis. og Karl Ingi Vilbergsson saksóknari sjást hér ræða málin í Landsrétti í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mál gegn Mohamad Thor Jóhannessyni, sem hét áður Mohamad Kourani, var tekið fyrir í Landsrétti í dag. Kourani var í Héraðsdómi Reykjaness í júlí dæmdur í átta ára fangelsi fyrir fyr­ir stungu­árás sem hann framdi í versl­un­inni OK Mar­ket ásamt öðrum brot­um. 

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, óskaði eftir því við þinghaldið í dag að upptökur vitna yrðu spilaðar fyrir dómi en engar kröfur voru aftur á móti frá lögmanni Kouranis, Stefáni Kristjánssyni.

Langur brotaferill

Fyrsta brot Kouranis var framið í desember 2017, en þá var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir skjalabrot.

Hann kom til landsins í ársbyrjun 2017 og hlaut alþjóðlega vernd vorið 2018. Hann hefur aldrei stundað launaða vinnu hér á landi en hefur hins vegar þegið opinbert fé til framfærslu.

Þá sat hann inni í 12 mánuði fyrir líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálgunarbanni, eignaspjöll, sprengjuhótanir, skjalafals, vopnalagabrot, umferðarlagabrot og sjö brot gegn sóttvarnarlögum. Hann lauk þeirri afplánun í janúar.

„Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann 19. desember 2017 dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir skjalabrot. Þá var ákærði í Landsrétti 31. mars 2023 dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálgunarbanni, eignaspjöll, fimm brot gegn valdstjórninni, tvær sprengjuhótanir, skjalafals, vopnalagabrot, umferðarlagabrot og sjö brot gegn sóttvarnarlögum og var með þeim dómi staðfest niðurstaða héraðsdóms 16. júní 2022.

Hann lauk 12 mánaða afplánun dómsins 26. janúar 2024. Eftir það var hann 14. mars sl. dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, valdstjórnarbrot, sprengjuhótun, tilraun til sprengjuhótunar og umferðarlagabrot. Sætir sá dómur áfrýjun fyrir Landsrétti,“ segir í dómi héraðsdóms frá því í júlí. 

Sakfelldur fyrir tilraun til manndráps

Í dóminum er einnig farið yfir árásina í OK Market í mars, þar sem hann réðst að tveimur mönnum með hníf, en hann var sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás og tilraun til manndráps.

„Brot ákærða voru framin af ásetningi og var vilji hans til ódæðisverkanna styrkur og einbeittur þegar hann veittist að ósekju og með ofsafengnum hætti að brotaþolum C og D og olli þeim töluverðu líkamstjóni. Ákærði hefur ekki sýnt merki iðrunar eða eftirsjár og ekki reynt að bæta ráð sitt, heldur þvert á móti haldið áfram af brotum með þeirri háttsemi sem hann er sakfelldur fyrir samkvæmt 5. og 6. ákærulið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert