Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa veist að barni undir lögaldri með ofbeldi í bíósal í desember í fyrra.
Þá var maðurinn dæmdur til að greiða barninu 250.000 kr. í miskabætur og tæpar 260.000 kr. í málskostnað.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur manninum í júlí. Hann var ákærður fyrir fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa, föstudaginn 1. desember 2023, í sal í Sambíóunum að Kringlunni í Reykjavík, veist með ofbeldi að ungum pilti með því að hafa tekið í hálsmál peysu hans og togað hann að sér, með þeim afleiðingum að hann rakst í sæti.
Við þetta hlaut pilturinn hlaut mar á höfði, upphandlegg og læri. Segir í ákærunni að með þessari háttsemi hafi maðurinn beitt piltinn ógnunum og sýnt honum vanvirðandi háttsemi, yfirgang og ruddalegt athæfi.
Móðir piltsins fór fram á 1,5 milljónir í bætur fyrir hönd sonar síns en eins og fyrr segir samþykkti dómstóllinn bótakröfu upp á 250.000 kr.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og var hann því sakfelldur samkvæmt ákæru. Hann hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsiverðan verknað, að því er segir í dómi héraðsdóms sem féll í gær.