Icelandair flutt á Flugvelli

Um 550 munu hafa starfsstöð í húsinu.
Um 550 munu hafa starfsstöð í húsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair hefur nú sameinað starfsemi sína á höfuðborgarsvæðinu, utan flugvallarstarfsemi, í nýju Icelandair-húsi á Flugvöllum í Hafnarfirði. 

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að húsnæðið sé viðbygging við þjálfunarsetur Icelandair sem reist var árið 2014. Mun bókleg og verkleg þjálfun áhafna, skrifstofustarfsemi, þjónustuver, þjónustuskrifstofa og stjórnstöð sameinast undir einu þaki, auk þess sem flugáhafnir koma saman í húsinu áður en haldið er til Keflavíkurflugvallar. Um 550 munu hafa starfsstöð í húsinu.

„Í nýja Icelandair-húsinu á Flugvöllum höfum við sameinað stóran hluta starfsfólks okkar á einum stað. Þar höfum við skapað fjölbreytta og framúrskarandi vinnuaðstöðu í takt við metnað okkar að vera eftirsóttasti og besti vinnustaður landsins,“ er haft eftir Elísabetu Helgadóttur, framkvæmdastjóra mannauðs og menningar hjá Icelandair.

Hún segir að það sé mikill ávinningur í að vera nær Keflavíkurflugvelli þar sem stærstur hluti starfsemi Icelandair fari fram.

Bygging Icelandair á Flugvöllum í Hafnarfirði.
Bygging Icelandair á Flugvöllum í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert