Þung umferð plagar nú ökumenn höfuðborgarsvæðisins.
Hörður Lilliendahl, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var sjálfur nýkominn inn úr umferðinni er blaðamaður ræddi við hann.
„Jólin eru að koma og það eru allir úti að keyra, bara jólaörtröð og lítið í því að gera,“ segir Hörður.
Inn í umferðartafirnar spili að ökumenn séu að fara óvarlega út á gatnamót og sitja þar svo fastir á rauðu ljósi og enginn komist leiðar sinnar.
Hörður segir léttur í bragði agaleysi og frekju Íslendinga um að kenna.
Hann segir lítið að færð og það sé ekki ástæða fyrir umferðartöfum. Umferðin sé hins vegar þung og megi ekkert út af bregða til þess að örtröð myndist.
„Það flaug dekk undan einum bíl í Ártúnsbrekkunni og þá fór allt í stíflu. Það má ekki bíll bila eða verða árekstur, þá hleðst þetta bara upp.“
Segir hann skipta máli að ökumenn sýni þolinmæði í aðstæðum sem þessum.
Spurður um götur þar sem umferð sé sérstaklega slæm um þessar mundir nefnir Hörður Sæbrautina. Eins og venjulega hafi flöskuháls myndast við Bústaðaveginn.
Á Þorláksmessu er oft mikil umferð og er nú spáð suðaustan hvassviðri eða stormi með rigningu eða slyddu suðvestanlands.
Hörður segir að engar sérstakar ráðstafanir séu gerðar vegna veðurspánnar en hann vonist til þess að spáin gangi ekki eftir.
„Ef hún raungerist þá náttúrulega náum við okkur í betur búna bíla og förum út og reynum að hjálpa eins og við getum.“