Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, verður forsætisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins sem verður kynnt um helgina. Samfylkingin verður með fjóra ráðherra og sömuleiðis Viðreisn en Flokkur fólksins verður með þrjá ráðherra. Eitt ráðuneyti verður lagt niður.
Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Á blaðamannafundi Kristrúnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar og Ingu Sæland formanns Flokks fólksins, sem haldinn var í Smiðju í gær, var tilkynnt að stjórnarsáttmáli flokkanna yrði kynntur um helgina.
„Við erum búnar að ná saman og stefnum að því að kynna stjórnarsáttmála núna um helgina,“ sagði Kristrún á fundinum.
Hvenær áætlið þið að ríkisstjórnin verði mynduð ef þið kynnið sáttmálann um helgina?
„Náttúrlega í kjölfarið,“ svaraði Inga Sæland.
Haldið þið þá að það gerist um helgina, að á sunnudaginn verði fundur með forseta?
„Þetta er nú bara skipulagsatriði á þessum tímapunkti en við stefnum að því að kynna sáttmálann og já, fara í að mynda nýja ríkisstjórn um helgina í kjölfarið,“ sagði Kristrún.
Flokkarnir ákváðu 3. desember að hefja stjórnarmyndunarviðræður og tilkynntu formennirnir á föstudag í síðustu viku, 13. desember, að farið yrði í að skrifa stjórnarsáttmála.
Þorgerður sagði á blaðamannafundinum að búið væri að ræða skiptingu ráðuneyta og að á næstunni yrði skiptingin kynnt þingflokkunum. Kristrún sagði varðandi ráðherraskipan að það skipti mestu máli að í hverju ráðuneyti væri einstaklingur sem gæti ýtt málum áfram hratt og örugglega.
„Við undirstrikum þetta: Sterk samhent ríkisstjórn,“ sagði Þorgerður.
Á fundinum kom fram að hátt í 60 minnisblöð hefðu verið skrifuð í tengslum við stjórnarmyndunina.