Vilhjálmur Þorsteinsson, sem sagði sig úr stjórn Sameinaða útgáfufélagsins vegna kaupa Heimildarinnar á Mannlífi, segist hafa verið ósammála stjórninni af viðskiptalegum og orðsporslegum ástæðum. Fjölskyldutengsl hafi spilað inn í ákvörðunina.
„Við Hjálmar Gíslason sögðum okkur úr þessari stjórn áður en það kom til ákvörðunar um kaup á Mannlífi,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
Bætir hann við að hann sé bundinn trúnaði um það sem gerist á stjórnarfundum félagsins en áætluð kaup hafi fyrst og fremst verið ástæðan fyrir úrsögn þeirra tveggja.
„Við vorum ósammála þessum kaupum af ýmsum ástæðum, viðskiptalegum og orðsporslegum og öðrum. Þar af leiðandi var ákveðinn grundvallarágreiningur uppi og við gripum til þessa ráðs,“ segir Vilhjálmur.
Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs og annar eigandi miðilsins, sagði á Facebook að viðræður um söluna hefðu staðið yfir frá því í júní.
Mun hann hætta sem ritstjóri Mannlífs við kaupin en sonur hans, Jón Trausti Reynisson, er framkvæmdastjóri Sameinaða útgáfufélagsins sem gefur út Heimildina.
Útgáfufélagið segir að ákvörðun um yfirtökuna hafi ekki verið tekin vegna fjölskyldutengsla. Enginn sem hafi komið að ákvörðuninni sé tengdur Mannlífi fjölskyldu- eða hagsmunaböndum.
Jón Trausti hafi vikið sér undan ákvörðun um málið vegna tengsla.
Höfðu fjölskyldutengsl eitthvað að gera með ákvörðunina?
„Auðvitað er það í prinsippinu þannig að það er aldrei gott að hlutafélag í eigu allmargra hluthafa sé í miklum viðskiptum við tengda aðila. Alla vega þarf alltaf að fara mjög varlega í slíku. Vissulega spila þau sjónarmið inn í þetta mál,“ segir Vilhjálmur.
Ákveðnir áskrifendur Heimildarinnar hafa gefið það út að þeir hyggist segja upp áskrift verði kaupin að veruleika og hafi sumir jafn vel þegar sagt upp áskrift vegna fyrirætlaðra kaupa.
„Það er grátlegt. Auðvitað er stóra markmiðið í þessu að halda úti faglegum og gagnrýnum fjölmiðli. Allt sem hjálpar þeim málstað er gott en allt sem ekki hjálpar þeim málstað er ekki gott,“ segir Vilhjálmur.