Selja parhús úr Grindavík á 5 milljónir

Húsið stendur við Lóuhlið 1-3.
Húsið stendur við Lóuhlið 1-3. Ljósmynd/Aðsend

Efnisveitan miðlar nú til sölu eistneskum timbureiningahúsum sem aldrei hefur verið búið í. Húsin voru byggð í Grindavík og nýkomin í sölu þegar hamfarirnar urðu í Grindavík. Kom þá í ljós að það reyndist vera sprunga undir sökkli hússins.

Um er að ræða parhús og er hvert hús 130 fermetrar að stærð með þrem svefnherbergjum. Kaupverð eru 5 milljónir, hvort hús um sig, gegn því að það verði hlutað niður og sótt. 

„Það er náttúrulega gríðarleg sóun að rífa þetta niður og selja úr þessu án þess að byggja það upp að nýju og við erum því fengnir í það að leita að góðum aðilum sem sjá sér hag í að taka þetta niður á sómasamlegan hátt þannig að allt gangi snurðulaust og það fari ekkert að fjúka eða neitt svoleiðis,“ segir Hugi Hreiðarsson, annar eiganda Efnisveitunnar, í samtali við mbl.is.

Talsverð eftirspurn

Húsið fór á sölu fyrir fáeinum dögum og hefur Efnisveitan fengið þó nokkrar fyrirspurnir um húsið síðan. Hugi segir að það skipti miklu máli að kaupandi hússins kunni handtökin í að taka niður og byggja upp hús og ekki skemmir fyrir hafi hann reynslu af slíku verki. 

Eins og fyrr segir er um parhús að ræða en Hugi segir að ekki sé skylda að þau séu byggð aftur saman. 

Efnisveitan hefur í nokkur ár miðlað húsum og fleiri munum til sölu en þetta er í fyrsta sinn sem þau miðla áfram einingahúsi og jafnframt fyrsta húsinu frá Grindavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert