Strætó sektar um allt að 15.000 krónur

Strætó segir m.a. í tilkynningunni að hægt sé að viðhalda …
Strætó segir m.a. í tilkynningunni að hægt sé að viðhalda góðri þjónustu með því að tryggja að allir farþegar greiði rétt fargjald. mbl.is/Agnar

Í byrjun næsta árs mun Strætó bs sekta þá farþega sem greiða ekki fargjald í strætisvagna. Heimild til að leggja fargjaldaálag á farþega sem ekki geta sýnt fram á gilt fargjald við eftirlit er í lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.

Almennt fargjaldaálag sem Strætó hyggst leggja á farþega sem ekki greiða fargjald verður 15.000 krónur. Börn yngri en 15 ára verða ekki sektuð og ungmenni (15 til 17 ára) og aldraðir mega búast við 7.500 króna sekt ef fargjald verður ekki greitt. Öryrkjar verða þá sektaðir um 4.500 krónur.

Álagið skal greitt á staðnum ellegar innheimt í heimabanka innan 3ja mánaða frá því það var sett á, segir í tilkynningu Strætó bs.

Ætlað að tryggja jafnræði

Í tilkynningu frá Strætó segir að álaginu sé m.a. ætlað að minnka svindl um borð í strætisvögnum og að fólk ferðist um miðalaust eða á röngu fargjaldi. Þannig sé álaginu ætlað að tryggja jafnræði og sanngirni í almenningssamgöngum.

„Með því að tryggja að allir farþegar greiði rétt fargjald er hægt að viðhalda góðri þjónustu og koma í veg fyrir að aukakostnaður vegna svindls bitni á öðrum farþegum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert