Þarf að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi

Landsréttur kvað upp úrskurð sinn í síðustu viku.
Landsréttur kvað upp úrskurð sinn í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli eins hinna sakfelldu í Sólheimajökulsmálinu um að hann skuli sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi.

Þann 3. desember var maðurinn sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og skipulagða brotastarfsemi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Var honum gert að sæta fangelsi í fimm ár. Hefur hann áfrýjað dómnum til Landsréttar, en ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferð muni fara fram í málinu.

Héraðssaksóknari krafðist þess í kjölfarið að maðurinn myndi áfram sæta gæsluvarðhaldi þar til endanlegur dómur liggi fyrir. Byggði héraðssaksóknari kröfu sína á almannahagsmunum. 

„Þegar litið er til eðlis brotanna sem dómfelldi hefur verið sakfelldur fyrir er jafnframt fallist á að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna,“ segir í úrskurði héraðsdóms. 

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 12. apríl. Er honum gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til 3. júní á næsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert