Agnar Már Másson
Guðrún Hafsteinsdóttir, fráfarandi dómsmálaráðherra, óskar nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í sínum störfum. Hún mun íhuga framboð til formanns á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins en segir ekki tímabært að ákveða slíkt núna.
„Það kom mér kannski á óvart að mér fannst þessi stjórnarsáttmáli nokkuð líkur þeim fyrri, hjá þeirri ríkisstjórn sem nú er að hverfa,“ segir Guðrún í samtali við fjölmiðla á Bessastöðum og en nefnir að áherslur um auðlindaskatta hafi komið sér á óvart.
Í samtali við fjölmiðla sagði hún að hún myndi veita nýrri ríkisstjórn venjulegt aðhald í stjórnarandstöðu.
Fráfarandi ríkisstjórn hóf sinn síðasta ríkisráðsfund klukkan 15.
Það er landsfundur Sjálfstæðisflokksins eftir nokkra mánuði, hefur þú ákveðið hvort að þú ætlir að bjóða þig fram til formanns?
„Nei, það hef ég ekki gert enda ekki tímabært að gera það,” segir Guðrún en hún leiðir flokkinn í Suðurkjördæmi, hvar flokkurinn fékk tæplega 20% fylgi í nýafstöðnum kosningum.
Er það til íhugunar?
„Já, ég mun alveg íhuga það. Ég hef fengið hvatningu til þess og ég mun bara hugsa það með mínu fólki.“
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að fara fram í lok febrúar og Bjarni Benediktsso, formaður flokksins, hefur ekki gefið út hvort að hann ætli sér að bjóða sig fram aftur.