Við Gulli Briem hittumst kannski ekki á horninu á Mánabar, eins og segir í frægu lagi með HLH-flokknum, en á Mánabar hittumst við þó. Sá huggulegi samkomustaður er í Þjóðleikhúsinu og þar er gott að setjast niður og spjalla. Gunnlaugur Briem, sem ávallt er kallaður Gulli, er alsæll að vinna í því frábæra húsi. Ekki var þó nóg að semja tónlistina, því hann mun vera á sviðinu ásamt tveimur öðrum hljóðfæraleikurum, Snorra Sigurðarsyni trompetleikara og Valdimari Olgeirssyni bassaleikara. Tónlistin skipar stóran sess í sýningunni.
Yerma, sem er upphaflega spænskt leikrit frá 1934, er jólasýning Þjóðleikhússins í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Verkið var síðar umskrifað fyrir breskt leikhús af Simon Stone og fært í nútímalegan búning.
„Þessi uppfærsla er svo nýja útgáfan, færð inn í íslenskan raunveruleika. Ég sem tónlistina og er tónlistarstjóri og er þetta stórt verkefni,“ segir Gulli.
„Vesturport svífur þarna yfir vötnum og það er enginn afsláttur gefinn. Þarna er kafað djúpt ofan í mannssálina. Í upprunalega verkinu fóru leikarar með ljóð á milli sena en nú er tónlist bæði á milli sena og eins í bakgrunni,“ segir Gulli.
„Ég fékk alveg frjálsar hendur við tónsmíðarnar,“ segir Gulli og útskýrir að hljómsveitin sé á sviðinu allan tímann og í raun hluti af settinu.
„Ég hef ekki áður samið fyrir leikhús þó að ég hafi spilað í leikhúsum, bæði í London og hér á Íslandi í gegnum tíðina. Ég samdi eitt og eitt lag fyrir Mezzoforte sem hafa lifað vel; lög sem ég hef bæði samið sjálfur og með strákunum. Svo hef ég líka verið að gefa út tónlist undir eigin nafni meðfram Mezzoforte og spilað líka með alls konar fólki í gegnum tíðina. En þetta er nýtt, krefjandi og skemmtilegt og ég er tilbúinn í þetta!“
Flestir tengja Gulla við Mezzoforte, sem stofnuð var 1977 og er enn starfandi. Gulli kvaddi hljómsveitina í fyrra eftir 43 ár í bandinu.
„Við fórum út í heim 1982 tuttugu ára gamlir og upp frá því var hljómsveitin mín aðalvinna. Það gekk mikið á þegar Garden Party-lagið sló í gegn í Bretlandi og fleiri löndum. Við túruðum út um allt og erum gamlir æskuvinir,“ segir Gulli og bætir við:
„Það var stundum gaman og stundum erfitt. Ég horfi til baka og minnist góðu tímanna en nú tekur nýtt við. Ég hef svo mikla sköpunarþörf og finnst erfitt að spila alltaf sömu lögin. Mig langaði að víkka út sjóndeildarhringinn,“ segir Gulli og viðurkennir að það hafi ekki verið sérlega auðvelt að yfirgefa hljómsveitina.
„Mér fannst ég staðnaður sem listamaður og trommuleikari í bandinu. Þetta er mjög góð hljómsveit með fullt af flottri músík, en ég er kominn á það aldursskeið í lífi mínu og ég hugsaði að ég þyrfti að nýta tímann minn vel og kanna óplægða akra,“ segir Gulli, en hann varð sextugur 2022.
„Ég var búinn að standa vaktina mjög lengi með Mezzoforte og kannski aðeins of lengi. Þetta var mikið ævintýri sem mér þykir alltaf vænt um. Það er alltaf stór ákvörðun að „fara úr hjónabandi“ því það eru tilfinningar í spilinu.“
Færðu aldrei leið á því að spila á trommur?
„Alls ekki og sérstaklega ekki núna þegar ég er búinn að fría mig frá gömlu útgáfunni af sjálfum mér. Nú nota ég trommurnar sem litapallettu og fylgi innsæinu og hjartanu.“
Ítarlegt viðtal er við Gulla í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.