Stefán E. Stefánsson
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að forsvarsmenn Samfylkingar og Viðreisnar hafi talað gegn því í kosningabaráttunni að virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna yrði hækkaður úr 11% í 24%. Segist hann vona að stjórnarsáttmáli sem kynntur verður í dag innifeli fyrirheit um að staðið verði við þau sjónarmið.
Jóhannes Þór er gestur Spursmála að þessu sinni ásamt Aðalgeiri Ávaldssyni formanni SVEIT, Samtaka fyrirtækja í veitingarekstri.
Aðalgeir tekur undir með Jóhannesi og segir mikilvægt að atvinnugreinin verði ekki fyrir enn einu högginu sem leiði til þess að hækka þurfi verð.
Bendir Jóhannes Þór á að nýleg úttekt sýni að ríkissjóður muni í lok dags bera minna úr býtum með því að hækka skattinn en með því að halda honum óbreyttum. Bendir hann á að flest bendi til þess að ferðaþjónustan á Íslandi verði í varnarbaráttu á komandi ári, ekki síst vegna samkeppni frá ferðaþjónustuaðilum í norðurhluta Noregs.
Viðtalið við Aðalgeir og Jóhannes Þór má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: