Kristrún Frostadóttir, verðandi forsætisráðherra, segir ríkisstjórnina samstíga og að stjórnarflokkarnir muni samþykkja þingsályktunartillögu um að fara í atkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik en að umræðan þurfi bæði rými og tíma.
Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, segist ekki vilja ganga í sambandið en segir þjóðina eiga að fá síðasta orðið í umræðunni.
Þetta kom fram á nýloknum blaðamannafundi nýrrar ríkisstjórnar sem fór fram í Hafnarborg í Hafnarfirði.
Á fundinum tók Kristrún undir að margir í þjóðfélaginu hefðu áhyggjur af sundrung í umræðu málsins og þess vegna skipti tímasetning og aðdragandi máli.
Minnir Kristrún á að um sé að ræða atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður sem sé aftarlega á kjörtímabilinu, nánar tiltekið 2027, og segir hún að farið hafi verið í ákveðna vegferð fram að því en t.d. verður gerð óháð skýrsla sem muni taka út gjaldmiðlamálin.
Segir hún sjálfa sig, auk Þorgerðar Katrínar, formanns Viðreisnar og Ingu Sæland, vera stuðningsaðila þess að þjóðin fái að skera úr um hvort haldið verði áfram eða ekki.
Þá sé ríkisstjórnin samstíga og munu flokkarnir samþykkja þingsályktunartillögu um að farið verði í atkvæðagreiðsluna en segir hún jafnframt að formenn stjórnarflokkanna séu meðvitaðir um að gefa þurfi umræðunni rými og tíma.
„Við erum að fara inn í áhugaverða og að sumu leyti sérstaka tíma í alþjóðamálum og við viljum bara hafa valkosti hvað þetta verða á kjörtímabilinu.“
Á blaðamannafundinum var Inga Sæland einnig spurð um hvort henni hefði snúist hugur í umræðunni, en hún hefur talað opinskátt um að Flokkur fólksins sé á móti inngöngu í Evrópusambandið.
Segir Inga flokkinn hins vegar vera lýðræðislega sinnaðan og að síðasta orðið sé hjá þjóðinni.
Alltaf vil ég að þjóðin mín eigi um það síðasta orðið.