„Mín tilfinning er sú að Íslendingar hafi bara smám saman orðið kristnir eins og aðrar þjóðir og engin athöfn farið fram, frekar en í Noregi.“
Þetta segir Sigurður Sigurðarson, höfundur nýrrar bókar, Óminni tímans, sem fjallar um stórmerka atburði úr Íslandssögunni, þar á meðal meinta kristnitöku. Í bókinni eru rök leidd að því að engin kristnitaka hafi verið árið 1000. Einnig að orð Snorra goða séu skáldskapur: „Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?“
Fornritin eru, að dómi Sigurðar, heillandi og stórkostlegur fróðleikur. „Lengi var fullyrt að þau væru sönn lýsing á því sem gerst hafði frá landnámi og fram á elleftu öld. Svo er ekki. Þau eru ekki heldur óyggjandi heimildir um forna tíð því svo ótalmargt vantar í þau og um leið virðist ýmislegt orðum aukið,“ segir hann og bætir við að flestir fræðimenn séu nú þessarar skoðunar og vari við því að sögurnar séu teknar of bókstaflega. Í þeim sé oft erfitt að greina á milli sagnfræði og skáldskapar.
Bókin skiptist í þrjá kafla og í lok hvers þeirra er efnið dregið saman í nokkur meginatriði. Kaflarnir nefnast: Um hvað reiddust goðin?, Uppruni landnámslagsins og Kalbletturinn í fornsögunum.
„Mér fannst mikilvægt að ná utan um þetta efni. Það hefur tekið mig sex ár að koma þessu frá mér og ég held að mér hafi tekist að gera það á aðgengilegan máta en bókin er ríkulega myndskreytt og kort og töflur styðja við frásögnina,“ segir hann.
Nánar er rætt við Sigurð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.