Afhenti hjálparsamtökum 500 gjafakort

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Ljósmynd/Aðsend

Krónan afhenti 12 hjálparsamtökum samtals 500 gjafakort sem safnað var fyrir í jólasöfnun Krónunnar á aðventunni. Viðskiptavinir söfnuðu 5 milljónum króna og jafnaði Krónan sömu upphæð á móti. Söfnuðust því alls 10 milljónir króna í jólastyrkjasöfnun matvöruverslunarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krónunni.

„Við hjá Krónunni erum gífurlega þakklát okkar viðskiptavinum og þeirra jákvæðu viðbrögðum við þessu verðuga málefni. Þetta er í fimmta skipti sem við bjóðum viðskiptavinum að taka þátt í söfnunni þar sem margt smátt gerir eitt stórt,” er haft eftir Guðrúnu Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, í tilkynningunni.

„Það er gott að finna fyrir gjafmildi og samhug viðskiptavina en söfnunin fer til samtaka sem sinna matarúthlutunum fyrir jólin í nærsamfélagi verslana Krónunnar.“

Styrkþegar velji sjálfir í matarkörfuna sína

Jafnframt segir að söfnunin hafi farið þannig fram að viðskiptavinum bauðst að styrkja fyrir 500 krónur eða meira og Krónan jafnaði sömu upphæð á móti. Upphæðin renni beint til hjálparsamtaka sem styðja þau sem þurfa á mataraðstoð að halda fyrir jólin. Styrkirnir séu veittir í formi gjafakorta svo að styrkþegar geti sjálfir valið í sína matarkörfu fyrir hátíðirnar.  

Góðgerðarsamtökin sem hlutu styrki í formi gjafakorta í ár voru velferðarsvið Reykjanesbæjar, Sjóðurinn góði í Árnessýslu, Stórólfshvolskirkja, Rauði kross Víkursvæðis, Styrktarsjóður Landakirkju, Jólasjóður Fjarðabyggðar, Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis, Mæðrastyrksnefnd Akraness, Mæðrastyrksnefnd í Kópavogi, Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert