Bjarni Benediktsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, afhenti Hönnu Katrínu Friðriksson lyklana að matvælaráðuneytinu fyrir skömmu en í dag er hann búinn að afhenda lykla að þremur ráðuneytum.
Bjarni Benediktsson tók við matvælaráðuneytinu þegar Vinstri græn neituðu að taka þátt í starfsstjórn.
Hanna Katrín verður hins vegar ekki matvælaráðherra heldur verður hún atvinnuvegaráðherra sem mun fara fyrir málaflokkum eins og landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, viðskiptum og ferðaþjónustu.
„Hér er hið rafræna kort sem hleypir þér inn í alla kima þessa húss. En ekki síður mikilvægt er að óska þér til hamingju með daginn og þessi tímamót á þínum ferli og í þínu lífi,“ sagði Bjarni og óskaði henni velfarnaðar í sínum störfum.
Hanna Katrín þakkaði Bjarna og forverum hans í matvælaráðuneytinu fyrir þeirra störf í þágu þjóðarinnar.
Á árinu hafa alls fimm ráðherrar sinnt matvælaráðuneytinu og það eru Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bjarni Benediktsson og nú Hanna Katrín.
„[Ég] vona að það verði ekki jafn oft skipt um á næsta ári,“ sagði Hanna og uppskar hlátur.
Fyrr í dag afhenti Bjarni lyklana að forsætisráðuneytinu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.