Bjarni afhenti lyklana að þriðja ráðuneytinu í dag

Bjarni færði Hönnu Katrínu blómvönd.
Bjarni færði Hönnu Katrínu blómvönd. mbl.is/Ólafur Árdal

Bjarni Benediktsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, afhenti Hönnu Katrínu Friðriksson lyklana að matvælaráðuneytinu fyrir skömmu en í dag er hann búinn að afhenda lykla að þremur ráðuneytum.

Bjarni Benediktsson tók við matvælaráðuneytinu þegar Vinstri græn neituðu að taka þátt í starfsstjórn.

Hanna Katrín verður hins vegar ekki matvælaráðherra heldur verður hún atvinnuvegaráðherra sem mun fara fyrir málaflokkum eins og land­búnaði, sjáv­ar­út­veg­i, iðnaði, viðskiptum og ferðaþjón­ustu.

Óskaði henni velfarnaðar í starfi

„Hér er hið rafræna kort sem hleypir þér inn í alla kima þessa húss. En ekki síður mikilvægt er að óska þér til hamingju með daginn og þessi tímamót á þínum ferli og í þínu lífi,“ sagði Bjarni og óskaði henni velfarnaðar í sínum störfum.

Hanna Katrín þakkaði Bjarna og forverum hans í matvælaráðuneytinu fyrir þeirra störf í þágu þjóðarinnar.

Vonar að það verði ekki jafn mikil ráðherravelta á næsta ári

Á árinu hafa alls fimm ráðherrar sinnt matvælaráðuneytinu og það eru Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bjarni Benediktsson og nú Hanna Katrín.

„[Ég] vona að það verði ekki jafn oft skipt um á næsta ári,“ sagði Hanna og uppskar hlátur.

Fyrr í dag afhenti Bjarni lyklana að forsætisráðuneytinu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert