Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir að framganga Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara gagnvart sér hafi tekið álíka mikið á hann og fjölskyldu hans og að sitja undir hótunum frá glæpamanninum Muhamad Kourani.
Þetta segir Helgi í samtali við mbl.is en Sigríður sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hún segir að hún muni ekki úthluta Helga verkefnum þar sem hún telur Helga ekki uppfylla almenn hæfisskilyrði til að gegna embætti vararíkissaksóknara.
Málið á sinn aðdraganda en Sigríður áminnti Helga árið 2022 fyrir ummæli sem hann hafði látið falla. Þann 29. júlí í ár óskaði Sigríður eftir því við dómsmálaráðherra að Helgi yrði leystur frá störfum, þar sem hún teldi hann ekki hafa bætt ráð sitt.
„Hún er að reyna draga þessa ályktun sjálf á sömu forsendum og ráðherra fjallaði um í sumar og hafnaði því sama. [Ráðherra] taldi mig vera hæfan til að gegna þessu starfi og mér yrði ekki vikið úr starfi. Þannig hún er í rauninni bara að þverskallast við að sætta sig við ákvörðun ráðherra, þar sem hún er í raun að fullyrða að niðurstaða ráðherra sé röng,“ segir Helgi en í sumar óskaði Sigríður eftir því að dómsmálaráðherra myndi leysa Helga tímabundið frá störfum.
Guðrún Hafsteinsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, hafnaði beiðninni.
Tilkynning Sigríðar kemur sama dag og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra tekur við lyklunum að ráðuneytinu.
Heldurðu að hún sé að koma með þessa tilkynningu núna í þeirri von um að nýr ráðherra komist að annarri niðurstöðu en fyrri ráðherra?
„Ég skal ekki segja, það gæti alveg verið. En það er að mínu viti algjörlega fráleitt því þetta er náttúrulega ákvörðun tekin í nafni þessa embættis en ekki persónunnar sem tekur ákvörðunina, það er að segja ráðherra. Þetta er stjórnvaldsákvörðun sem verður ekki bara felld úr gildi því það er kominn nýr ráðherra,“ segir Helgi en ítrekar að hann viti ekki hver hugsunarháttur Sigríðar sé.
Hann segir aðspurður að þessar deilur hafi tekið verulega á og að þetta hafi haft mjög leiðinleg áhrif á hann og fjölskyldu hans. Hann segir hótanir Kourani ekki hafa tekið meira á heldur en framganga Sigríðar.
„Að vera með hangandi yfir mér þessa óvissu um starfið sem maður er búinn að helga 26 árum af ævi sinni. Það að sitja undir þessu er bara mjög óþægilegt og hefur ekkert tekið minna á heldur en hótanir Kourani á sínum tíma,“ segir Helgi Magnús.
Kourani hefur tvívegis hlotið dóm fyrir hótanir í garð Helga. Á tíu daga tímabili í janúar árið 2021 sendi hann Helga sex tölvupósta með líflátshótunum í garð hans og í sumum tilvikum einnig fjölskyldu hans.
Svo þann 7. mars hótaði hann Helga ítrekað lífláti í afgreiðslurými ríkissaksóknara.