Guðlaugur gaf Jóhanni nokkur frumvörp

Guðlaugur Þór kveðst tilbúinn í stjórnarandstöðu.
Guðlaugur Þór kveðst tilbúinn í stjórnarandstöðu. mbl.is/Eyþór Árnason

Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir vissulega söknuð fólginn í því að hætta í ráðuneytinu en það sé fyrst og fremst vegna þess góða starfsfólks sem er í ráðuneytinu og undirstofnunum.

Lyklaskipti fóru fram í ráðuneytinu í dag og hann afhenti Jóhanni Páli Jóhannssyni, nýjum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lyklana.

Lyklarnir voru þó ekki það eina sem hann gaf Jóhanni heldur gaf hann honum möppu með nokkrum frumvörpum sem hann hvatti Jóhann til að flytja fyrir þingið. Snúa þau að því að hægt sé að auka orkuöflun, einfalda leyfisveitingaferli og tryggja náttúruvernd. 

Hyggst veita ríkisstjórninni aðhald

Þú hefur nú áður verið í stjórnarandstöðu þó að það séu nokkur ár síðan. Ertu spenntur?

„Ég held að ég hafi ekki neinu gleymt,“ segir Guðlaugur hlæjandi og bætir við að hann muni veita ríkisstjórninni aðhald.

Hann segir forréttindi að fá að vinna að sínum hugsjónum á Alþingi Íslendinga og segir hlutverk stjórnarandstöðu mikilvægt.

„Stjórnarandstaða þarf ekki bara að vera mótmæli, hún getur líka verið það að styðja menn og hvetja til góðra verka.“

Verkefni að koma sér inn í málaflokka

Spurður hvort hann geti veitt Jóhanni góð ráð segir hann svo vera.

Hann hvetur Jóhann til þess að lesa þær tugi skýrslna sem hafa verið gerðar að undanförnu um málefni sem heyra undir ráðuneytið.

„Eitt af því sem gerist þegar maður fer inn í nýja málaflokka þá er verkefni að koma sér vel inn í þau,“ segir hann en nefnir að á síðustu árum hafi verið unnar skýrslur og úttektir sem skýri hlutina vel.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsmálaráðherra.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert