Keyrði undir áhrifum og próflaus á eftirlýstum bíl

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum í gærkvöldi …
Lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir voru handteknir í Garðabæ í gærkvöldi þar sem þeir óku um í eftirlýstri bifreið. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna sem og akstur sviptur ökurétti. Báðir aðilar voru vistaðir í fangaklefa þar til tekin var af þeim skýrsla vegna nytjastuldarins.

Þá var kona handtekin í Kópavogi grunuð um akstur undir áhrifum áfengis. Hún sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og á því yfir höfði sér kæru vegna þess athæfis og fleiri umferðarlagabrota en hún reynist einnig vera próflaus.

Þetta segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna erinda frá 17 í gær til 5 í morgun.

Akstur án ökuréttinda

Í Árbænum voru tveir handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og reyndist annar ökumannanna einnig vera sviptur ökurétti.

Í Kópavogi var ökumaður kærður fyrir að hafa ekið bifreið þrátt fyrir að vera sviptur ökurétti en segir í dagbók lögreglunnar að um sé að ræða margítrekað brot hjá viðkomandi.

Í Hlíðarhverfi Reykjavíkur voru höfð afskipti af ökumanni sem var látinn blása í áfengisprófunarmæli. Blés hann undir refsimörkum og var gert að hætta akstri. Við skoðun kom í ljós að bifreiðin reyndist ótryggð og skráningarmerkin því fjarlægð.

Nokkrir réðust að tveimur

Þá var ökumaður kærður fyrir að haga ökuhraða sínum ekki miðað við aðstæður en hann ók of greitt þrátt fyrir hálku á akbrautinni og slæm birtuskilyrði sökum myrkurs. Var málið afgreitt með vettvangsskýrslu.

Einnig var lögreglu tilkynnt um nokkra aðila sem réðust að tveimur í Breiðholtinu og er málið í rannsókn, og þá var aðili kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar vegna ofbeldistilburða í miðborginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka