Lögreglan fylgist með umferð við kirkjugarða

Úr kirkjugarðinum á Naustahöfða á Akureyri á aðfangadag í fyrra.
Úr kirkjugarðinum á Naustahöfða á Akureyri á aðfangadag í fyrra. mbl.is/Þorgeir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með sérstakt umferðareftirlit við Fossvogskirkjugarð og Gufuneskirkjugarð á aðfangadag og greiðir þar fyrir umferð eins og hægt er, að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Býst hún við mikilli umferð við kirkjugarða á höfuðborgarsvæðinu á morgun Þorláksmessu og á aðfangadag.

Kirkjugarðarnir eru opnir og aðgengilegir allan sólarhringinn yfir hátíðirnar, að sögn lögreglu.

Bendir hún fólki á að klæða verði sig eftir veðri og að víða verði færð ekki með besta móti.

Umferð akandi lokað

„Vakin er sérstök athygli á því að Fossvogskirkjugarður er lokaður allri bílaumferð á aðfangadag frá kl. 11-14 vegna mikils fjölda gangandi vegfarenda og slysahættu. Ökumönnum er bent á bílastæði við Fossvogskirkju, Klettaskóla, Suðurhlíð og Vesturhlíð,“ segir í tilkynningunni.

Segir þar að aðkoma að Gufuneskirkjugarði verði eingöngu frá Hallsvegi. Umferðinni verði stýrt inni í kirkjugarðinum en farið verður frá kirkjugarðinum norðanmegin og inn á Borgaveg.

„Ökumenn eru beðnir um að aka Borgaveg í vestur og þaðan um Strandveg. Með þessu móti minnkar álagið á Víkurveg og Hallsveg og greiðir fyrir umferð þeirra sem eru að koma í kirkjugarðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert