„Ókræsilegt veður“ yfir hátíðirnar

Reykvíkingar eiga von á suðvestanhríðaveðri og dimmum éljum á næstunni.
Reykvíkingar eiga von á suðvestanhríðaveðri og dimmum éljum á næstunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leiðindaveður verður á vesturhelmingi landsins yfir hátíðirnar en skárra verður það fyrir Norðlendinga og Austfirðinga. Reykvíkingar fá suðvestanátt með dimmum éljum í jólagjöf frá veðurguðunum.

Að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, mun hvassviðri sem spáð er í nótt ganga yfir í hádeginu á morgun en aðrar viðvaranir taka svo við annað kvöld, þá í kringum Vestfirði og Norðurland vestra og eystra.

„Það gæti verið svolítið leiðindahríðaveður fyrir norðan annað kvöld,“ segir Þorsteinn og heldur áfram.

„Við biðjum fólk að keyra varlega ef það er að keyra á milli landshluta, einnig með vesturhelming landsins í nótt. Ef einhver ætlaði að taka daginn snemma á morgun þá er kannski betra að bíða eitthvað fram yfir hádegi með það, út af þessu hvassviðri sem er víðast snjókoma í nótt.“

Leiðinlegt ferðaveður

Aðspurður segir hann leiðindaveðrið teygja sig yfir á aðfangadag á vesturhelmingi landsins og að von sé á suðvestanhríðaveðri.

„Aðfangadagurinn er svolítið þannig. Það eru engar viðvaranir komnar enn þá en þær gætu komið. Það verða svona mjög dimm él og leiðinlegt ferðaveður á suður- og vesturhluta landsins.“

Veðrið verði í lagi framan af deginum en muni svo versna með kvöldinu og verði orðið býsna leiðinlegt á aðfangadagskvöld og haldi þannig áfram á jóladag og annan í jólum.

Skánar helgina eftir jól

Hann segir hins vegar að von sé á lítilli úrkomu á Norðurlandi og Austurlandi og að þar verði veðrið skárra yfir hátíðina.

Á vesturhelmingi landsins fari svo að draga úr veðrinu á föstudag og mun veðrið lagast yfir helgina eftir jól þar sem fer að draga úr vindi og verður hann norðlægari.

„En fram að því er þetta svona ókræsilegt veður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert