Enn er unnið að því í Ríkisútvarpinu að setja saman viðmið um ritun dánarfregna sem fluttar eru í fréttatímum stofnunarinnar.
Þetta kemur fram í svari Heiðars Arnar Sigurfinnssonar fréttastjóra Ríkisútvarpsins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Brugðið var á það ráð að setja sérstök viðmið í kjölfar háværrar gagnrýni á fréttaflutning Ríkisútvarpsins í september sl. um fráfall Benedikts heitins Sveinssonar, lögmanns, athafnamanns og föður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
Kunngjörði útvarpsstjóri að gerð yrðu „formleg viðmið um ritun og birtingu andlátsfrétta, efnistök þeirra og framsetningu“.
Í svari Heiðars Arnar kemur fram að í lok september hafi verið settur saman hópur til að setja umrædd viðmið á blað og segir hann að hópurinn hafi skilað af sér um miðjan október.
„Þá hafði verið boðað til kosninga og verkefnið lagt til hliðar meðan fréttastofan var meira og minna upptekin við þær. Við erum núna að kalla eftir umsögnum hér innanhúss um þessi viðmið sem verða innanhússreglur hjá okkur,“ segir Heiðar Örn.
Spurður um hvenær téð viðmið eigi að vera fullfrágengin segir hann enga ákveðna lokadagsetningu liggja fyrir.
„Ég reikna með að gefa frest fram yfir áramótin til að safna saman athugasemdum og umsögnum,“ segir hann og nefnir aðspurður að hægt ætti að vera að deila þeim með áhugasömum þegar þar að komi.
Spurningu um við hvaða viðmið hafi verið stuðst í þeim dánarfregnum sem fluttar hafa verið síðan greint var frá andláti Benedikts, var svarað þannig að þær „andlátsfréttir sem skrifaðar hafi verið undanfarið lúta sömu ritstjórnarlegu viðmiðum og áður.“