„Ég vil byrja á því að óska þér innilega til hamingju og velfarnaðar. Það er yndislegt að fá að vera ráðherra og stýra stefnumótun landsins í þessum málaflokkum.“
Þetta sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrrverandi ráðherra, þegar hún afhenti Hönnu Katrínu Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, lyklana að ráðuneytinu fyrr í dag.
Lilja afhenti Hönnu Katrínu Snorra Eddu og sagðist vonast eftir því að það yrði vel haldið utan um íslenska menningu, en auk þess fékk Hanna Katrín blómvönd og gamlan vínilplötuspilara.
„Mér finnst mikilvægt að þessir góðu tónar fái að streyma hér í þessu góða ráðuneyti.“
Lilja gaf Hönnu Katrínu auk þess stefnu um aðgerðir í málaflokki ferðamála sem búið var að gera.
„Þakka þér kærlega fyrir,“ sagði Hanna Katrín.
„Ég óska þér líka velfarnaðar í næstu skrefum. Ég hef notið þess að vinna með þér, við hliðina á þér og á móti þér stundum og ég veit að þú átt eftir að gera góða hluti hvar sem þú ákveður að stinga niður fæti næst eftir langan feril hér í ráðuneytinu,“ sagði hún að lokum.