Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur aðeins þurft að sinna einu útkalli í morgun vegna vatnsveðursins í nótt og snemma í morgun.
Að sögn Árna Sigurðssonar, varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, fékk slökkviliðið tilkynningu um vatnsleka í íbúðarhúsi á Arnarnesi um sjöleytið í morgun. Þar hafði vatn brotið sér leið að utan vegna stíflu í niðurfalli í götunni. Hann segir að vel hafi gengið að hreinsa vatnið upp sem ekki hafi verið mikið.
„Ég átti von á fleiri útköllum en það er greinilegt að fólk hefur tekið alvarlega viðvörunum okkar um að hreinsa vel frá niðurföllum. Ég held að fólk sé að verða aðeins meira meðvitað um þetta enda ansi leiðinlegt að þurfa að stíga ofan í poll þegar maður kemur fram úr rúminu,“ segir Árni við mbl.is.