Skúli Gunnar Sigfússon, athafnamaður og eigandi Subway á Íslandi, segir Eflingu fara með fleipur og að enginn starfsmaður Subway á Íslandi hafa greitt félagsgjöld til stéttarfélagsins Virðingar.
„Við höfum aldrei skilað einni krónu til Virðingar, það hefur enginn starfsmaður greitt þangað.“ segir Skúli.
Efling sendi fjölmiðlum tilkynningu fyrr í dag um fimm veitingastaði sem stéttarfélagið telur standa að baki kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í veitingarekstri (SVEIT) og Virðingar.
Þar er einnig fullyrt að Efling hafi undir höndum gögn sem sýni að starfsfólk Subway hafi verið látið greiða félagsgjöld til Virðingar.
Um miðjan mánuðinn var kjarasamningur á milli SVEIT og Virðingar dreginn til baka og er í endurskoðun.
„Þá ákváðum við að við yrðum náttúrulega ekki með fólk á samningi sem er ekki í gildi.“
Skúli segir að um sé að ræða fjögur eða fimm tilfelli þar sem starfsmenn hjá Subway voru skráðir hjá Virðingu í nóvember, en um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu.
Þeir starfsmenn voru síðan færðir annað eftir að kjarasamningurinn var dreginn til baka en Skúli segir að allir starfsmenn Subway fái greitt samkvæmt settum taxta Eflingar.
„Ég vil líka taka fram að það er félagafrelsi. Starfsfólkið mitt ræður í hvaða félagi það vill vera. Ég ræð því ekki.“
Hann bendir á að langt um flestir starfsmenn Subway séu skráðir hjá Eflingu en að framferði Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, vegi að starfsemi fyrirtækisins.
„Flestir starfsmenn mínir eru í Eflingu og hún er að vega að starfsemi fyrirtækisins með því að vera með þessar hótanir og eineltistilburði. Hún er að vega að starfsöryggi þeirra með því að vega að fyrirtækinu og ég kann lítið að meta það.“
Í tilkynningu frá Eflingu kemur fram að stéttarfélagið hafi sent veitingastöðunum sem um ræðir erindi og að þeim hafi ekki borist svar frá veitingastöðunum fimm sem koma fram í tilkynningu.
Samkvæmt erindi Eflingar sem Sólveig Anna skrifar undir er félagstali SVEIT hótað aðgerðum gegn fyrirtækjum samtakanna.
Sjö aðgerðir eru þar nefndar, þar á meðal könnun á lagalegum grundvelli þess til að kæra einstök aðildarfyrirtæki. Þar er sagt að brot á ákvæðum almennra hegningarlaga um auðgunarbrot geti varðað fangelsi allt að sex árum.
„Heimsókn“ til bækistöðva aðildarfyrirtækja er þar einnig nefnd, þar sem starfsfólk fyrirtækjanna verði upplýst um „árásir“ SVEIT á launakjör og réttindi starfsfólks.
Spurður út í viðbrögð sín við erindabréfi Eflingar bendir Skúli á að engar spurningar sé að finna í bréfinu.
„Það var ekki spurt um einn einasta hlut í bréfinu, þannig ég taldi mér ekkert skylt að svara þessu hótunarbréfi.“
Enga spurningu er að finna í erindi Eflingar heldur eru fyrirtæki sem eru ekki lengur aðili að SVEIT beðin um að senda tilkynningu þess efnis til Eflingar.
Við gerð þessarar fréttar náðist, ásamt Skúla, í rekstraraðila Public House Gastropub og Finnsson Bistro, en þeir vildu ekki tjá sig opinberlega um tilkynningu Eflingar.
Þó kom fram að í tilfelli Finnssons Bistro er einungis einn starfsmaður af þrettán skráður hjá Virðingu en sá starfsmaður er hlutastarfsmaður.