Holtavörðuheiðin lokuð

Útkallið kom rétt fyrir 18 í kvöld.
Útkallið kom rétt fyrir 18 í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir úr Húnavatnssýslunum og uppsveitum Borgarfjarðar hafa verið kallaðar út en tvær rútur eru í vandræðum á Holtavörðuheiði sökum veðurs. Búið er að loka heiðinni og vill lögreglan á Norðurlandi vestra brýna fyrir ökumönnum að leggja ekki af stað án þess að kanna fyrst aðstæður á vef Vegagerðarinnar. 

Þá eru hugsanlega einhverjir fólksbílar í vandræðum á heiðinni einnig.

Þetta upplýsir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Voru björgunarsveitirnar úr Húnavatnssýslu kallaðar út rétt fyrir klukkan 18 og stuttu síðar björgunarsveitir úr uppsveitum Borgarfjarðar til að koma til móts á heiðinni.

„Það er skaðræðisveður þarna uppi,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is og tekur fram að vindhviðurnar á svæðinu séu að fara yfir 30 m/s.

Í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi vestra kemur svo fram að önnur hópbifreiðin sé með á þriðja tug erlendra farþega og verða þeir sóttir og ferjaðir í Staðarskála. 

„Því er beint til ökumanna að fylgjast vel með veðurspám og vef Vegagerðarinnar umferdin.is. Veðurspá er mjög slæm fyrir næstu daga,“ segir ennfremur í tilkynningu lögreglunnar. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert