Kona sakfelld fyrir að draga dreng eftir dyraat

Meðal gagna málsins voru ljósmyndir af áverkum drengsins sem móðir …
Meðal gagna málsins voru ljósmyndir af áverkum drengsins sem móðir hans tók daginn eftir atvikið en á þeim mátti sjá áverka á herðablaði, vinstri hendi og hægri olnboga hans. mbl.is/Karítas

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt konu fyrir að draga dreng gegn vilja sínum frá leikvelli og upp tröppur sem lágu að heimili hennar eftir að drengurinn gerði dyraat á heimili hennar. 

Framburður konunnar og drengsins greindi mjög á en dómurinn dæmdi drengnum í hag. 

Viðurkenndi dyraatið

Móðir drengsins mætti til lögreglu í kjölfar atviksins til þess að kæra líkamsárás og barnaverndarlagabrot á hendur ólögráða syni sínum.

Samkvæmt framburði drengsins hafði hann verið að leik með vini sínum á leikvelli nærri húsi konunnar. Drengirnir léku sér með frisbídisk sem hafði lent á þaki á skúr í garði konunnar.

Þeir hafi farið og sótt diskinn þegar drengurinn sem um ræðir fékk þá hugmynd að gera dyrat. Vinur drengsins var þó ekki á sama máli en engu að síður gerði drengurinn dyratið einn sín liðs.

Þar næst földu þeir sig þegar þeir sáu konuna koma að leikvellinum. Konan náði þó drengnum og greip um úlnlið og dró hann með sér að húsinu sínu.

Öskraði og grét

Í dóminum kemur fram að drengurinn hafi byrjaði að öskra og reynt að streitast á móti en konunni tókst að draga hann frá hliði leikvangsins að útidyratröppum heimilis síns.

Hlaut drengurinn svo mar á herðablaði þegar konan ýtti honum upp við húsvegg. Drengurinn er sagður hafa grátið mjög mikið vegna atviksins og orðið mjög brugðið.

Vinur drengsins heyrði í öskrum vinar síns og ætlaði að hjálpa en hljóp heim til sín þegar konan sneri sér að honum og sagði honum að koma með sér líka. Heyrði þó amma vinarins í öskrum drengsins úr íbúð í nágrenni við leikvöllinn og kallaði vinurinn eftir móður sinni sem átti í orðaskiptum við konuna.

Vildi ræða við foreldra drengjanna

Konan neitaði sök í málinu og sagði drenginn hafa gert dyraat á heimili sínu og kastað grjóti í húsið.

Hún kvaðst hafa þurft að þola mikinn ágang barna í hverfinu undanfarin ár.

Hún sagðist ekki hafa gripið um úlnlið drengsins heldur hefði hún komið og rætt við drengina til að fá upplýsingar um foreldra þeirra til að geta rætt við þá.

Þar næst hafði hún rétt drengnum höndina sína og boðið honum að koma með sér. Það segir hún drenginn hafa gert af fúsum og frjálsum vilja.

Hún segir hann hafa byrjað að gráta eftir að hún greindi honum frá því að hún ætlaði að hringja í móður hans og sagðist ekki bera ábyrgð á áverkum hans.

Vitnisburður var drengnum í hag

Meðal gagna málsins voru ljósmyndir af áverkum drengsins sem móðir hans tók daginn eftir atvikið en á þeim mátti sjá áverka á herðablaði, vinstri hendi og hægri olnboga hans.

Þá voru þrjú vitni að atburðarrásinni, vinur drengsins, amma vinarins og móðir hans.

Dómurinn dæmdi þannig drengnum í hag og er konunni gert að sæta refsingu brjóti hún skilorð á næstu tveimur árum og að greiða drengnum 400.000 krónur í skaðabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert