„Láta ekki bara vopnin tala“

Íslenskar friðarhreyfingar hafa staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu …
Íslenskar friðarhreyfingar hafa staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu frá árinu 1980. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undirbúningur fyrir friðargönguna í ár er í fullum gangi og Ingibjörg Haraldsdóttir, einn af skipuleggjendum göngunnar, segir allt á réttri leið. Margir nýta sér gönguna til þess að ganga frá síðustu jólagjafakaupum og til þess að fagna komu jólanna.

„Veðrið lítur vel út og við erum bara bjartsýn og vonum að næsta lægð skelli ekki á fyrr en eftir gönguna.“

Gengið Laugaveginn frá árinu 1980

Ingibjörg segir þau búast við miklum fjölda á gönguna í Reykjavík enda nýta margir sér tækifærið til þess að ganga frá síðustu gjafakaupum fyrir aðfangadag og fagna komu jólanna.

„Það eru svo margir sem líta á þetta sem nauðsynlegan þátt í jólaundirbúninginum. Koma í friðargönguna og fara niður í bæ að kaupa seinasta pakkann eða fara á kaffihús eða eitthvað svona til að kvitta fyrir því að nú sé allt tilbúið.“

Íslenskar friðarhreyfingar hafa staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu frá árinu 1980.

Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Mynd úr …
Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Mynd úr safni. mbl.is/Þorgeir

Í ár mun fólk safnast saman við Hlemm við Snorrabraut og gengið verður af stað niður Laugaveginn á slaginu sex undir söng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar.

Á Austurvelli verður síðan haldinn stuttur útifundur þar sem Ingunn Ásdísardóttur mun flytja ávarp og Haukur Guðmundsson fer með fundarstjórn.

Fjölnotaljós verða seld í göngubyrjun á 1000 krónur stykkið.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps friðarhreyfinga en hann skipa Félag leikskólakennara, Friðar- og mannréttindahópur BSRB, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, Samhljómur menningarheima, Samtök hernaðarandstæðinga og Búddistasamtökin SGI á Íslandi.

Loka fyrir umferð venju samkvæmt 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út að venju samkvæmt verður lokað fyrir akandi umferð í miðborginni á Þorláksmessu. Lokanirnar tóku gildi klukkan tvö í dag og ná til miðnættis.

Vegna friðargöngunnar varar lögreglan við smávægilegum töfum á gatnamótum Snorrabrautar og Laugavegar og á gatnamótum Lækjargötu og Bankastrætis á meðan gangan gengur yfir.

Friðargöngur hafa einnig verið boðaðar á Akureyri og Ísafirði. Ísfirðingar munu safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi og á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi.

Á Akureyri mun Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur ávarpa fjöldann og mun Svavar Knútur tónlistarmaður taka nokkur lög.

Kort/Reykjavíkurborg

Ákall um friðsamlegar lausnir

Ingibjörg segir skilaboð göngunnar í ár vera þau sömu og á árum áður eða frið á jörðu. Hún nefnir sérstaklega í því samhengi stríðið í Úkraínu og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs.

„[...] og í fleiri löndum þar sem er að geisa stríð við hugsum til þeirra.“

Hún segir þó yfirskrift göngunnar vera leit að friðsamlegum lausnum og ákall til heimsleiðtoga að setjast niður og semja um frið.

„Láta ekki bara vopnin tala.“

Ingibjörg hvetur fólk til þess að mæta tímanlega og þá eitthvað fyrir sex eða áður en gangan hefst.

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert