„Mikilvægt að hvíla viðbragðið“

Frá Svartsengi.
Frá Svartsengi. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Dregið hefur úr öllu viðbragði á Svartsengissvæðinu eftir að ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað að fara af hættustigi á óvissustig í kjölfar lok eldgossins á Sundhnúkagígaröðinni þann 9. þessa mánaðar.

Eldgosið hófst 20. nóvember og stóð yfir í 18 daga. Landris er hafið á ný á Svartsengissvæðinu og á meðan kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi eru auknar líkur á eldgosi sem gæti brotist út á næstu vikum.

„Okkar helstu sérfræðingar tala um að dregið geti aftur til tíðinda í byrjun febrúar þannig að við erum tiltölulega róleg og höfum með hliðsjón af öllum upplýsingum frá okkar helstu vísindamönnum dregið úr viðbragði. Til að mynda mun aðgerðarstjórn og vettvangsstjórn ekki funda yfir jólin og næsti fundur er boðaður mánudaginn 30. desember,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Vinna við varnargarða liggur niðri

Úlfar segir að vinna við varnargarðana liggi niðri fram yfir jól og áramót en lögreglan muni halda uppi eftirliti með Grindavík eins og öðrum svæðum á Suðurnesjum. Þá segir hann að slökkviliðið sé með daglega viðveru frá klukkan sjö til sjö.

„Við erum alltaf á tánum en það er tiltölulega rólegt í augnablikinu og það er mikilvægt fyrir okkur að hvíla aðeins viðbragðið ef það er hægt. Og núna þegar við eigum kost á því þegar almannavarnarviðbragðið er óvissustigi þá reynum við að draga úr okkar viðbragði eins og nokkur kostur er,“ segir Úlfar.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar segir að Grindavíkurvegurinn sé opin og starfsemi sé í gangi í Svartsengi þar á meðal í Bláa lóninu. Hann segir að samstarf við þá sem eru þar í rekstri og allt viðbragð lögreglu, slökkviliðs og Vegagerðarinnar sé þétt og gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert