Norðlenskt harðmæli heldur áfram velli

Ásgrímur segir skaftfellskan einhljóðaframburð hafa verið algengari meðal yngri þátttakenda …
Ásgrímur segir skaftfellskan einhljóðaframburð hafa verið algengari meðal yngri þátttakenda en rannsakendur áttu von á. mbl.is/Arnþór

Norðlenskt harðmæli í orðum eins og bátur og kápa hefur minnkað talsvert frá fyrri tímum. Framburðurinn er enn áberandi í máli Eyfirðinga og Þingeyinga af eldri kynslóðinni en ungt fólk á þeim slóðum sýnir mun minni merki um harðmæli. Skaftfellskur einhljóðaframburður, sem kemur fram í orðum eins og bogi og magi, hefur einnig minnkað á kjarnasvæði sínu en dreifingin er mun jafnari á milli aldurshópa.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem miðar að því að kortleggja stöðu og þróun svæðisbundinna framburðareinkenna á Íslandi. Ásgrímur Angantýsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, leiðir rannsóknina ásamt Finni Friðrikssyni, dósent við Háskólann á Akureyri. Stór hópur fræðafólks vinnur að rannsókninni með þeim.

40 ár frá síðustu rannsókn

Viðhorf gagnvart svæðisbundnum framburðareinkennum eru könnuð á kerfisbundinn hátt í rannsókninni og er það nýjung að sögn Ásgríms. Rannsóknin er umfangsmikil en tæplega þúsund manns tóku þátt í netkönnun þar sem átti að lesa og taka upp eigin framburð, hlusta á framburð annarra og svara ýmsum bakgrunns- og viðhorfsspurningum.

Tími var kominn á nýja rannsókn á svæðisbundnum framburðareinkennum að sögn Ásgríms. „Það eru orðin 40 ár síðan það var gerð svona yfirlitsrannsókn á íslenskum framburði, en 40 árum á undan henni hafði verið gerð önnur rannsókn, mjög viðamikil,“ segir Ásgrímur í samtali við Morgunblaðið. Þessi rannsókn kallast á við fyrri rannsóknir og felur meðal annars í sér viðtöl við fólk sem tók þátt í framburðarrannsóknum á fimmta og níunda áratugnum.

Náðu í fólk á tíræðisaldri sem var í rannsókn á fimmta áratugnum

„Við náðum í 23 þátttakendur sem voru í upphaflegu rannsókninni sem Björn Guðfinnsson gerði á fimmta áratugnum, fólk sem er á tíræðisaldri í dag. Auk þess að kanna framburðinn gátum við spurt það fólk út í viðhorf þess og hugmyndir um eigin framburð og annarra en það hafði ekki verið gert á skipulegan hátt áður,“ segir Ásgrímur. Þátttaka þessa hóps hefur vakið athygli í vísindasamfélaginu, hérlendis og í útlöndum.

„Við skoðum til dæmis hvort fólk hafi breytt framburði sínum, meðvitað eða ómeðvitað, hvort og þá hvers vegna það hafi lagt sig fram um að halda í upprunalegan framburð þegar það flytur af heimasvæði sínu, eða kannski tekið upp svæðisbundin framburðareinkenni á nýjum stað,“ segir Ásgrímur.

„Við fengum ýmsar áhugaverðar upplýsingar úr netkönnuninni, til dæmis um að það virðist vera auðveldast að þekkja norðlenskan framburð og svæðisbundinn framburður virðist vera ríkari þáttur í sjálfsmynd Norðlendinga en annarra þátttakenda,“ segir Ásgrímur. Hann bætir við að nú sé verið að vinna úr gögnum sem greina betur á milli viðhorfa til harðmælis annars vegar og svokallaðs raddaðs framburðar hins vegar.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert