Landsmenn gæða sér á skötu í dag, líkt og venja er á Þorláksmessu. Margir tóku forskot á sæluna um helgina, líkt og á Þórshöfn.
Skötuilminn lagði eftir Bakkaveginum og vandalaust að rekja sig að upptökum þessa sterka jólailms sem barst frá útgerðarhúsi Geirs ÞH-150. Þar stóð yfir hin árlega skötuveisla fyrir áhöfn Geirs og fjölskyldur þeirra.
Eigendur útgerðarinnar, hjónin Jónas Jóhannsson og Þorbjörg Þorfinnsdóttir, hafa haldið í þá hefð að bjóða áhöfninni og öllum þeirra fylgifiskum í skötu fyrir jólin. Í þetta sinn voru tæplega 40 gestir í vistlegu útgerðarhúsinu en sá yngsti var þriggja ára barnabarn vélstjórans á Geirnum.
Geirfuglarnir, eins og áhöfn Geirs er gjarnan nefnd, veiða sjálfir tindabikkjuna en verkun hennar tekur um einn og hálfan til tvo mánuði en á Jónasi hvílir sú ábyrgð að sjá um verkunina.
„Það er með skötuna ekki ósvipað og vínið frá vínekrunum, árferði og tíðarfar hefur alltaf nokkuð að segja um það hvernig afraksturinn verður. Skatan er aldrei alveg eins á milli ára, þetta árið er hún vel sterk og ilmandi,“ sagði Jónas þar sem hann stóð yfir rjúkandi pottum og færði þetta ljúfmeti upp á fat.
Bragðið var ekki síðra en ilmurinn og gestir voru hæstánægðir með veitingarnar en saltfiskurinn var þó vinsælli hjá þeim yngstu. Einnig var tvíreykt hangikjöt og konfekt á borðum í þessari veglegu veislu þar sem enginn fór svangur frá borði.